„Ég skora á þig, ágæti þingmaður, að fá þingflokkinn þinn sem og aðra kjörna fulltrúa Alþingis sem hafa áhuga á að sýna vilja og samúð í verki að standa með heimilunum og fjölskyldunum í landinu. Fá þetta ágæta fólk með þér í lið að leggja fram frumvarp um að setja lög á Seðlabanka Íslands, festa vexti í 3% og láta bara á það reyna hvaða þingmenn setja sig gegn slíkum björgunarhring fyrir heimilin og fjölskyldurnar,“ segir hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir að skoðun hans sé einföld:
„Hlustið á gagnrýni fólksins, umbjóðenda ykkar. Minna tal, meiri efndir. Þá líka sjáum við hvaða samvisku þingmenn sem kjörnir eru inn á Alþingi Íslendinga hafa að geyma og fyrir hvern þeir eru að vinna.“
Sigurjón beinir ekki bara orðum sínum að þingmönnum heldur einnig að verkalýðsforystunni sem hann telur að megi vera mun sýnilegri og þar þurfi að ríkja meiri samstaða en nú er.
„Trúverðugleiki allra þessara persóna og leikenda fer minnkandi meðan enginn þorir að stíga fram og boða alvöruaðgerðir fyrir fólkið í landinu, heimilin og fjölskyldurnar.“
Í grein sinni segir hann að honum sárni það mjög þegar þingmenn fullyrða að ekki sé hægt að láta reyna á eitthvað sem aldrei hefur reynt á áður í þinginu, til dæmis lög á Seðlabankann um að festa vexti í 3% eða taka húsnæðisliðinni út úr vísitölunni. „Slík svör eru ekkert annað en viss uppgjöf í mínum bókum.“
Hann segir að ef þetta er ekki það sem koma skal frá þingmönnum þá sé ráð fyrir þjóðina að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Þar komum við að Hagsmunasamtökum heimilanna og forystu verkalýðsins að setja upp undirskriftalista inni á Ísland.is þess efnis að skora á ríkisstjórn Íslands að setja umrædd lög á Seðlabankann og taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni. #EkkiGeraEkkiNeitt segja bankar og lánastofnanir, eigum við ekki sem lántakendur að gera þeirra orð að okkar og beina þeirra áskorunum aftur til föðurhúsanna,“ segir Sigurjón og endar grein sína á þessum orðum:
„Ákall heimila og fjölskyldna er alveg skýrt: Andskotist nú til að taka þetta til ykkar sem eigið og gerið eitthvað af viti sem stoppar þessa sjálftöku sem á sér stað gagnvart heimilum og fjölskyldum landsmanna, því með sama áframhaldi er stefnan beint niður á við í annað allsherjarhrun, nokkuð sem væri gleðistund fyrir vogunarsjóði og hrægamma.“