„Nú biðla ég til ykkar eftir hjálp til handa elsku Ástu æskuvinkonu minni,“ segir Hrund Traustadóttir, sem ásamt fleiri hefur sett af stað söfnun fyrir krabbameinsmeðferð erlendis fyrir vinkonu sína.
Ásta Guðríður Guðmundsdóttir, sem verður 51 árs í lok nóvember greindist með eggjastokka- og lífhimnukrabbamein í byrjun maí árið 2020.
„Síðan þá hefur baráttan staðið nánast sleitulaust og er Ásta búin að sýna yfirnáttúrulegan styrk og einbeittan vilja í gegnum ómanneskjulegar hindranir. Ásta er okkur öllum svo falleg fyrirmynd því það er sama hvað gengur á, hún tekst á við allar áskoranir með sinni einstöku jákvæðni, bjartsýni og jafnvel húmor því hann er aldrei langt undan og hláturinn er heilandi eins og við vitum. Hún hefur hugrekki á við öll ljónin í skóginum og baráttuþrek til að toppa hugrekkið.
Baráttan hefur verið afar hörð og ósanngjörn, hún hefur undirgengist þrjár erfiðar aðgerðir og þrjár lyfjameðferðir á þessum þremur árum. Fjórða lyfjameðferðin er nýhafin og það er vitað að hún mun aðeins hægja á meininu, ekki lækna það.“
Hrund segir að það sem haldi Ástu gangandi í dag og hvetji hana áfram séu meðferðir sem finna má erlendis sem hafa skilað góðum árangri. Þær eru hins vegar afar kostnaðarsamar og ekki fyrir hvern sem er að standa straum af því.
„Við sem stöndum henni næst höfum því ákveðið að hefja söfnun fyrir Ástu til þess að hún megi sækja meðferð út fyrir landsteinana. Henni stendur til boða meðferð sem hefur gert kraftaverk fyrir fólk með alls kyns krabbamein, en vegna þess hversu langt krabbameinið er komið hjá Ástu þá þarf hún að komast út sem allra fyrst. Meðferðin og allt þar í kring stefnir í kostnað upp á 9.000.000 kr. sem við ætlum að safna saman með aðstoð ykkar.
Ásta er vinkona, hún er unnusta, dóttir og systir. Umfram allt er hún þó mamma, amma og tengdamamma. Það er allt undir núna gott fólk og með galopið hjartað leitum við til ykkar eftir stuðningi.
Með aðstoð ykkar og allra þeirra sem geta lagt okkur lið, vitum við að meðferðin getur orðið að veruleika. Við höfum því stofnað söfnunarreikning í nafni Ástu þar sem öll frjáls framlög eru meira en vel þegin. Margt smátt gerir eitt stórt.“
Þeir sem vilja styrkja við söfnunina geta lagt inn á reikning sem er á nafni og kennitölu Ástu:
Kennitala: 201172-3149
Reikningur: 0537-14-403086
„Ást og þakklæti til ykkar. Ég bið um að þessari færslu verði dreift sem víðast,“ segir Hrund.