fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Hlynur á steypubílnum potaði í auga lögreglumanns og kleip annan í kinnina

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 2. október 2023 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hlynur Geir Sigurðsson var í dag dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að veitast að tveimur lögreglumönnum með ofbeldi. Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Var hann ákærður fyrir að hafa veist með ofbeldi að lögreglumanni við skyldustörf þann 21. september árið 2022 og gripið um höfuð hans og þrýst fingrum inn í vinstra augað. Hlaut lögreglumaðurinn hrufl og eymsli í auganu.

Einnig að hafa á sama tíma veist að lögreglukonu við skyldustörf, gripið um andlit hennar og klipið um hægri kinn sem orsakaði roða og bólgu. Þá hafi hann ýtt henni utan í ísskáp sem orsakaði mar á hægri upphandlegg.

Hlynur á nokkra brotasögu að baki. Meðal annars var hann sakfelldur fyrir að hafa stolið steypubíl og ekið glæfralega um miðborg Reykjavíkur árið 2020. Einnig var hann dæmdur fyrir að hafa kveikt í skemmtistaðnum Pablo Discobar viku síðar.

Í þessu máli sem um ræðir var lögregla kölluð til vegna þess að Hlynur var að reyna að komast inn í íbúð. Þegar lögreglan mætti á svæðið var hann kominn inn og húsráðandi að reyna að koma honum út. Var Hlynur í annarlegu ástandi, óðamála, mjög ör, ber að ofan og skólaus samkvæmt lögregluskýrslu.

Þurfti fimm menn til að yfirbuga

Erfiðlega gekk að ræða við hann og fékk lögreglan það á tilfinninguna að hann væri ófyrirsjáanlegur. Hlýddi hann engum fyrirmælum lögreglumannanna. Að lokum var varnarúða spreyjað í andlit hans og lagðist hann þá á magann. Byrjuðu lögreglumennirnir þá að festa hann í handjárn.

Eftir að vinstri hönd hans var handjárnuð byrjaði Hlynur skyndilega að streitast á móti og náði að standa upp. Reyndu lögreglumennirnir fangbrögð en hann greip í höfuð annars lögreglumannsins og þrýsti fingrum inn í vinstra augað af krafti. Hann náði hins vegar að loka auganu. Hinum lögreglumanninum, sem er kona, ýtti Hlynur að ísskáp og kleip í hægri kinn.

Komu þá þrír aðrir lögreglumenn á vettvang og yfirbuguðu Hlyn.

Leituðu báðir lögreglumenn læknisaðstoðar eftir þennan hamagang og fengið áverkavottorð. Þá voru notuð gögn úr búkmyndavél til að sýna fram á atburðarásina sem og framburður vitna.

Ekki ásetningur

Hlynur neitaði sök í málinu. Í skýrslutöku rúmri viku eftir atvikið neitaði hann að tjá sig um sakarefnið. Í annarri skýrslutöku, þann 5. desember, sagði hann að húsráðandi hefði hleypt sér inn í íbúðina. Þegar hann hafi áttað sig á því að hann væri á leið í fangelsi sagðist hann hafa vitað að hann myndi ekki þola það vel og því hafi hann reynt að spyrna á móti og koma sér út úr íbúðinni.

Sjá einnig:

Þetta er Hlynur á steypubílnum – Þrítugsafmælið fór úr böndunum – Harmsaga ungra hjóna – „Ég vona að ég fái manninn minn aftur“

Neitaði Hlynur að hafa potað í auga lögreglumannsins en að einhver átök hefðu orðið og hann sett fyrir sig hendurnar. Hann myndi ekki vel eftir því sem gerðist en að það hafi ekki verið ásetningur hans að valda lögreglumönnunum meiðslum.

„Það hefði verið búið að meisa hann og hefði hann allur logað vegna þess,“ eins og segir í dóminum. „Einnig kom fram hjá ákærða að hann hefði verið með áverka á hendinni og hefði haldið að þau væri að reyna að drepa hann þegar þau hefðu náð honum niður.“

Langur brotaferill

Var Hlynur sakfelldur fyrir tvö valdstjórnarbrot. Við refsiákvörðun er litið til langs brotaferils, frá árinu 2010 fyrir meðal annars eignaspjöll, þjófnað, umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot og líkamsárásir. Með þessum nýju brotum var hann einnig að rjúfa reynslulausn vegna dóms frá árinu 2020. Vegna alvarleika brotanna og sakaferilsins voru ekki talin efni til að skilorðsbinda dóminn.

Eins og áður segir hlaut Hlynur fjögurra mánaða fangelsisdóm. Þá greiðir hann rúmlega 560 þúsund krónur í lögfræði og sakarkostnað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“