Fjölmiðlar víða um heim hafa greint frá því að neyðarástandi hafi verið lýst yfir í New York borg í Bandaríkjunum í kjölfar mikilla flóða í borginni.
BBC greinir frá því að flóð hafi skollið á strætum, götum og neðanjarðarlestakerfi borgarinnar. Ein flugstöð á Laguardia flugvelli hafi þurft að loka en hafi nú verið opnuð á ný.
Flóðin skullu á eftir gríðarlega úrkomu, sem mældist 20 sentimetrar þegar hún var í hámarki. Það jafngildir því að meðalúrkoma í borginni á rúmlega hálfu ári hafi fallið á innan við sólarhring.
Ríkisstjóri New York ríkis Kathy Hochul sagði um lífshættulegt óveður að ræða.
Ríkisstjórinn lýsti yfir neyðarástandi í borginni, og í Long Island og Hudson-dalnum sem eru í næsta nágrenni hennar.
Hochul hvatti íbúa eindregið til að halda kyrru fyrir og ferðast ekki um götur sem eru á kafi í vatni.
Enn sem komið er hefur ekki verið tilkynnt um slys á fólki eða dauðsföll.
Eric Adams borgarstjóri New York ítrekaði að á meðan neyðarástand stendur yfir verði íbúar borgarinnar að vera varir um sig og ferðast ekki að óþörfu í ljósi þess hversu erfitt það sé á meðan hluti samgöngukerfis borgarinnar sé undir vatni.
Borgarstjórinn segir að á öðrum tug manna hafi verið bjargað úr bílum og kjallaraíbúðum.
Hochul ríkisstjóri segir að þótt dregið hafi úr úrkomunni sé ekki tímabært fyrir íbúa New York að fara aftur á stjá.
Flóðin ollu miklum truflunum á lestarsamgöngum bæði í borginni og næsta nágrenni hennar. Þó nokkrar ferðir í neðanjarðarlestakerfinu voru felldar niður.
Úrkoman á hverri klukkustund var á tímabili um það bil tvöfalt meiri en holræsakerfi borgarinnar var hannað til að ráða við.
Lögreglan hefur lokað fjölda vega og þjóðvarðlið New York ríkis hefur verið kallað út.
Ekki hefur fallið jafn mikil úrkoma í september í New York borg síðan 1882.
Á ljósmyndum og myndböndum frá borginni, sem birtar hafa verið á samfélagsmiðlum, hefur m.a. mátt sjá íbúa vaða vatnið á götum borgarinnar sem náð hefur þeim upp að hnjám og einnig hefur mátt sjá vatn flæða um neðanjarðarlestarstöðvar. Nokkur myndbönd sem fjölmiðlar og notendur samfélagsmiðla hafa birt má sjá hér að neðan:
Major flooding in New York!! #flashflood #flashflooding #flooding #flood #newyork #newyorkcity #nyc #brooklyn #rain #rainstorm #storm #downpour #streetflooding #sel #abd #usa #BREAKING
pic.twitter.com/XWjiAcmD8q pic.twitter.com/FTYUcV1q8H
— Suepin (@yzimng2) September 29, 2023
Myndband frá CNN má sjá hér