fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

„Hver á nú að benda okkur á hræsnina og trénun hugans í siðapostulasamfélagi samtímans?“

Fókus
Laugardaginn 30. september 2023 08:00

Guðbergur Bergsson. Mynd: Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhann Páll Valdimarsson, fyrrverandi bókaútgefandi, minnist vinar síns og fyrrum samstarfsmanns, Guðbergs Bergssonar rithöfundar, sem lést fyrir skömmu, í hjartnæmri Facebook-færslu í gærkvöldi. Eins og mörgum er eflaust kunnugt var haldinn minningarathöfn um Guðberg í Hörpu í gær. Jóhann Páll veitti DV góðfúslegt leyfi til að fjalla um færsluna.

Jóhann Páll hefur minningarorð sín á því að hann hafi þegar samstarf hans og Guðbergs hófst ekki átt von á því að það yrði sérstaklega langlíft enda hefði slíkt gengið í berhögg við persónuleika Guðbergs:

„Samstarf okkar Guðbergs hófst fyrir um 40 árum. Ekki hvarflaði að mér að samstarfið myndi standa alla tíð. Það var í mótsögn við eðli og aðferðir Guðbergs. Hann forðaðist öryggi og ég vænti ekki annars en að hann myndi sprengja samvinnuna í loft upp. En það gerðist ekki og lá aldrei nærri því. Það kom aldrei upp ágreiningur.“

Jóhann Páll segir að Guðbergur hafi aldrei viljað þjóna einum né neinum nema skáldskapnum:

„Guðbergur þoldi ekki klíkur, hvorki hugmyndafræðilegar eða eða pólitískar. Margir nudduðu sér upp við hann og skjölluðu og vildu hafa hann í sínum herbúðum. Hann brást alltaf illa við og réðst beinlínis gegn því fólki sem vildi eigna sér hann. Hann þoldi heldur ekki uppskrúfað menningarhjal og dellur sem við Íslendingar festumst svo gjarnan í. Hann réðst ævinlega gegn þeim og þegar yfir lauk höfðu flestir snúið við honum baki, niðurlútir og súrir. Ekkert var verra en réttrúnaður í huga Guðbergs. Hann þjónaði bara skáldskapnum.“

Hann segir Guðberg alla tíð hafa verið hispurslausan við þjóð sína og ávallt sagt það sem honum bjó í brjósti og það hafi margt fólk ekki verið sátt við:

„Hann girti niður um þjóðina sem stóð berskjölduð á skítugum hlýrabol og var ekki skemmt. Samt eru sögurnar (sögur Guðbergs, innsk. DV) óður um fátækt og óupplýst fólk sem býr þó yfir viti og miklum tilfinningum. Hann lofsyngur engan og hlífir engum. Þetta er heimurinn sem mótaði tilfinningar hans og vitsmuni. Sjálfum sér hlífði Guðbergur aldrei. Guðbergur var vissulega þyrnóttur og særði marga. Hann sagði alltaf hug sinn og skeytti ekki um rétthugsun og hefðir um hvað væri viðeigandi. Með því kallaði hann skiljanlega yfir sig óvægnar árásir og segja má að honum hafi margsinnis verið slaufað og það löngu áður en það orð varð ríkjandi í umræðunni.“

Haldinn djúpstæðri sjálfseyðingarhvöt

Jóhann Páll segir að ólíkt því sem margur kann að hafa haldið hafi Guðbergur alls ekki verið ónæmur fyrir árásum á hann persónulega. Þvert á móti:

„Hann hirti ekkert um árásir vegna ritverka sinna en persónulegar árásir særðu hann djúpt. Samt kallaði hann þær vísvitandi yfir sig. Hágrátandi trúði hann mér fyrir því að hann væri haldinn djúpstæðri sjálfseyðingarhvöt. Skáldskapurinn á sér margar uppsprettur og líf hans laut honum einum. Hann var sannasti höfundur sem ég hef kynnst.“

Eftir að Jóhann Páll kynntist Guðbergi sá hann að þar fór nægjusamur meinlætamaður sem hirti lítið um veraldleg gæði:

„Húsmunir í íbúð hans voru fáir og einfaldir. Hann sóaði aldrei. Mótaður af umhverfi sínu og uppeldi í Grindavík lét hann nægja að kaupa sér til matar fiskþunnildi á vægu verði. Það féll í pottinn ásamt fáeinum kartöflum flesta daga. Stundvíslega fimm mínútum fyrir sjö. Eitt sinn átti hann í hugarangri og létti á sér við mig. Hann hafði þá venju að fá sér göngutúr á kvöldin en í nokkur ár hafði hann freistast til að kaupa sér smávindil á göngunni. Hann var ósáttur við sjálfan sig að bruðla svona í óþarfa og trúði mér fyrir því að nú hefði hann látið af þessum ósið. Hann var ekki nirfill. Þettta stríddi gegn eðli hans og hann var glaður að hafa sigrast á veikleika sínum.“

Eftir að Guðni Þorbjörnsson sambýlismaður Guðbergs kom inn í líf hans, fyrir um það bil einum og hálfum áratug, öðlaðist Guðbergur í raun nýtt líf að sögn Jóhanns Páls. Veikindi og fráfall Jaime Salinas sambýlismanns Guðbergs til margra ára hefðu fengið mjög á hann en Guðni hefði reynst Guðbergi sannkölluð himnasending. Guðni hefði boðað Jóhann Pál í heimsókn til hans og Guðbergs skömmu fyrir andlát skáldsins:

„Það var ómetanlegt að liggja með Guðbergi í sjúkrarúmi hans í góða stund og skiptast á ærslum og ástarjátningum á víxl. Og kettirnir og Guðni vöktu yfir okkur. Þetta var himnesk kveðjustund sem nálægur dauðinn náði ekki að spilla. Ég fæ aldrei þakkað fjörutíu ára kynni og samstarf. Ég hef átt gott og yndislegt samstarf við marga höfunda en Guðbergur gnæfir yfir allt. Þau dýpkuðu mig og stækkuðu. Risi er fallinn. Nú sefur hann í djúpinu. Hver á nú að benda okkur á hræsnina og trénun hugans í siðapostulasamfélagi samtímans?“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar