Sextíu ára gamall klíkuforingi, Duane Davis eða Keefe D, hefur verið handtekinn og ákærður fyrir að hafa fyrirskipað morðið á rapparanum Tupac Shakur árið 1996. Davis, sem var háttsettur í Compton Crips-glæpaklíkunni, var handtekinn af rannsóknarlögreglumönnum á gangi nærri heimili sínu í Las Vegas fyrr í dag og dreginn fyrir dómara þar sem ákæran var þingfest. Hafnaði dómstóllinn beiðni lögmanna Davis um að hann fengi að ganga laus gegn tryggingu.
Tupac var skotinn fjórum sinnum þann 7. september 1996 í Las Vegas, þegar hann var aðeins 25 ára gamall, og lést hann af sárum sínum þann 13. september. Rapparinn hafði öðlast heimsfrægð á þeim tíma, ekki bara fyrir tónlistina heldur hafði hann einnig getið sér gott orð á hvíta tjaldinu.
Handtaka Keefe D þarf þó ekki að koma nenum sem fylgst hefur með málinu á óvart. Glæpaforinginn hefur nefnilega montað sig af aðkomu sinni að morðinu í ótal viðtölum auk þess sem hann játaði aðild sína í ævisögu sinni Compton Street Legend. Þar sagðist hann hafa rétt frænda sínum, Orlando ‘BabyLane’ Anderson, morðvopnið og sá skaut síðan rapparann. Þá hefur hann einnig tjáð lögreglunni um aðkomu sína en það gerði hann fyrir tæpum 15 árum þegar hann átti yfir höfði sér þungan dóm fyrir fíkniefnamisferli.
Tilefni morðsins var að fyrr um kvöldið höfðu Tupac og meðlimir fylgdarliðs hans, sem höfðu tengsl við glæpaklíkuna The Bloods – svörnum óvinum Crips, barið Anderson til óbóta eftir að hann hafði reynt að stela minjagrip frá ferli rapparins. Keefe D vissi að Tupac átti að troða upp á tilteknum skemmtistað ogf fékk frændi hans far þangað á Cadillac-bifreið glæpaforingjans. Þannig hjálpaði Davis frænda sínum að hefna grimmilega fyrir barsmíðarnar. Tveimur árum síðar lét Anderson sjálfur lífið í skotárás og mun því ekki svara til saka fyrir meintan glæp sinn.
Fyrr í sumar gerðu rannsóknarlögreglumenn í Las Vegas umfangsmikla húsleit hjá Davis þar sem leitað var að einhverjum sönnunargögnum sem gætu tengt glæpaforingjann við morðið. Þrátt fyrir að Davis hafi rætt málið opinskátt fer lögreglan í Las Vegas að öllu með gát og má búast við langvinnum réttarhöldum.