Meinti raðmorðinginn Rex Heuermann þurfti eftir úrskurð dómara að heimila að lífsýni hans væri tekið til rannsóknar. Þeirri rannsókn er nú lokið og leiddi í ljós að erfðaefni Rex fannst á líki einnar af þeim þremur konum sem hann hefur verið sakaður um að hafa myrt. Áður hafði hann verið tengdur við fórnarlambið með lífsýni sem lögregla aflaði af pizzu-skorpu sem fannst í ruslatunnu við heimili Rex og Ásu Guðbjargar Ellerup. Verjendur Rex gerðu mikið úr þeirri aðferð sem notuð var til að afla sýnanna og töldu algjörlega óhæft að fullyrða að lífsýnið kæmi úr Rex.
Nú er þó ljóst að pizzu-erfðaefnið var vissulega úr arkitektinum og mun vera um eitt mikilvægasta sönnunargagn í málinu gegn honum að ræða. Verjandi Rex var þó ekki lengi að skipta um gír. Hann benti á að erfðaefnið hjá fórnarlambinu væri hár, en enginn sérfræðingur í heiminum gæti mætt fyrir dóm og fullyrt að hárið bendi til þess að Rex hafi myrt konuna. Allt eins gæti Rex hafa hreinlega gefið hár sitt til hárkollugerða, eða álíka. Þetta sönnunargagn sanni því ekkert.
Verjandinn tók fram að skjólstæðingur hans sé ekkert skrímsli, heldur sé verið að bera hann rangri sök. Af þeim gögnum sem verjandi hafi fengið afhend í málinu megi sjá upptökur úr eftirliti lögreglu með Rex og fjölskyldu. Þessar upptökur sýni venjulegan fjölskyldumann, fara í vinnu, eyða tíma með fjölskyldu, höggva eldivið og slaka á á veröndinni. Rex sé enn að reyna að átta sig á því hvernig í málinu liggi. Hann megi verja 4 klukkustundum á dag í að fara yfir gögn málsins, en um sé að ræða gífurlegt magn af skriflegum gögnum, upptökum, yfirheyrslum og slíku. Hann nái að nýta sér um 2-3 tíma á dag og sé hægt og rólega að reyna að komast í gegnum þetta allt.
Samkvæmt erlendum miðlum mun hann eiga i einhverjum samskiptum við eiginkonu sína, Ásu Ellerup, sem þó hefur sótt um skilnað. Ása var ekki viðstödd þegar Rex mætti í dómsal í vikunni og hefur enn sem komið er ekki heimsótt hann. Lögmaður Ásu segir hana þó reyna að nálgast málið með opnum hug. Lögmaður Ásu greindi frá því nýlega að Ása væri að krefjast þess að lögregla afhendi henni aftur þau skotvopn sem gerð voru upptæk við húsleit á heimili hennar.
Nú hefur Rex lagt fram sömu kröfu, og segist þurfa þessi vopn svo hann geti komið þeim í verð og þannig séð fyrir fjölskyldu sinni, en fyrir handtöku hans bjó hann með Ásu, dóttur þeirra Victoriu og stjúpsyni sínum Christopher. Börnin eru bæði uppkomin en Christopher glímir við fötlun og Victoria hafði áður starfað sem móttökuritari fyrir föður sinn. Ása glímir við krabbamein og missti vinnuna eftir að maður hennar var handtekinn.