Bað Sölva Fannar um að fara að ofan
Blaðakonan og hæfileikadómarinn, Marta María Jónsdóttir, baðst afsökunar á að hafa beðið einkaþjálfarann og ljóðskáldið Sölva Fannar Viðarsson um að klæða sig úr að ofan áður en hann fór með ljóðagjörning fyrir dómnefndina í þættinum Ísland got talent á Stöð 2 í gærkvöldi.
Ummælakerfi landsins hafa logað vegna spurningar Mörtu Maríu sem hún bendir á að hafa verið lítið annað en grín sem spratt fram í hita leiksins.
Virkir í athugasemdum hafa haldið því fram að ef karlmaður hefði spurt konu að slíku hinu sama hefði hann verið gagnrýndur harkalega fyrir.
Marta María skrifar á Facebook: „Ef karl hefði beðið konu um að fara úr að ofan þá hefði hann verið sakaður um kynferðislega áreitni. Það að biðja Sölva Fannar um að hátta sig á sviðinu var auðvitað grín sem spratt fram í hita leiksins. Ég veit að þetta fór fyrir brjóstið á einhverjum og vil ég biðja þá afsökunar. Ég skal reyna að haga mér!“
Sölvi komst áfram með ljóðagjörninginn sinn sem hét Women, og fjallaði að hans sögn um konur sem geta verið svo flóknar að þær skilja sig ekki sjálfar.
Sölvi Fannar hefur verið iðinn við listsköpun og má finna nokkur ljóð eftir hann á menningarvefnum Ljóð.is.
Þar má meðal annars finna ljóðið Heilindi, sem kannski nær að fanga andrúmsloftið í samskiptum Sölva og Mörtu.
Ljóðið má finna hér fyrir neðan sem og atriðið sjálft:
Heilindi
orð þín
í tíma töluð
þínum tíma
tilveran er fléttuð úr óendanlegum fjölda smáatriða
hugsunum
orðum og athöfnum
sem mynda saman fínofinn
ósýnilegan vef
sem er líf okkar
vefinn getum við einungis séð
með því að stíga
út úr okkur sjálfum
út úr vefnum
og píra “augun” á ákveðinn hátt
ef vefurinn er heill
er allt í lagi
orð mín
í tíma töluð
mínum tíma
er vefur okkar heill?