fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Á Íslandi kostar peningur alltof mikið

Eyjan
Laugardaginn 30. september 2023 14:00

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er brostinn á flótti á Íslandi. Og svo sem ekki í fyrsta skipti. Fjármagnsflóttinn er og hefur verið eitt helsta einkenni þeirrar þjóðfélagsgerðar sem almenningur hefur þurft að sætta sig við um sína daga.

Og enn einu sinni flýja heimilin undan kostnaðarþunga krónunnar. Þau neyðast til að leita á náðir verðtryggðra lána af því að kostnaðurinn við þau óverðtryggðu er orðinn svo óheyrilega mikill að þau eru ekki lengur á valdi venjulegs launafólks.

Þetta er íslenska myndin. Hún er jafn einföld og hún er afkáraleg.

Á Íslandi kostar peningur allt of mikið.

Og þess utan er fyrirsjáanleikinn í fjármálum enginn.

Íslendingar eiga þess aldrei kost að vita hvað lánin þeirra kosta.

Þar er komið hið hversdagslega happdrætti þar sem allir tapa nema bankarnir og fjármagnseigendur. Þeir eru einu sigurvegararnir á Íslandi. Valdstjórninni hefur í heilan mannsaldur tekist að verja hagsmuni efnamanna á kostnað alþýðunnar. Það hefur beinlínis verið stefna ríkjandi afla að færa fjármagn frá þeim fátæku til hinna ríku.

„Íslendingar eiga þess aldrei kost að vita hvað lánin þeirra kosta.“

En þetta er kallað fallegum nöfnum. Það má ekki annað vera.

Bankarnir eru tilbúnir að „skuldbreyta“ og þeir eru viljugir til að „lengja í lánum“ og gott ef ekki að gera þau „afturhlaðnari“ svo ósköp saklausir lántakendur ráði betur við byrðina.

En á skiljanlegri íslensku þýðir þetta einfaldlega verðhækkun. Svona um það bil einhver, en þó líklega umtalsverð. Og það verður bara að koma í ljós. Altso, hvað lántakandinn þarf að borga á endanum til þess aðallega að auka við efnahagsbata bankans.

Það gildir nefnilega sérstök regla við lántökur á Íslandi. Eða öllu heldur óregla. Lántakandinn skrifar undir samning við viðskiptabanka sinn án þess að hafa hugmynd um hvað hann greiðir honum á endanum.

Fyrir allan almenning er þetta háttalag sambærilegt við það að kaupa bifreið hjá einhverju bílaumboðanna með þeim afarkjörum að það verði bara að koma í ljós á næstu árum hvað hann kostar í raun og veru.

Nema hvað, að í tilviki lántakandans í bönkunum, er hann að taka áhættu með ævitekjurnar. Þá langstærstu eign sem hann sér fyrir sér að eignast með einhverju móti á efsta degi, þótt kostnaðurinn við hana sé álíka óljós og veðurfarið á landinu bláa.

Á Íslandi hefur verið töluverður meirihluti fyrir því að hafa þetta bara svona. Hjá stærstum hluta þjóðarinnar hefur ríkt pólitísk sátt um að peningar eigi að kosta miklu meira en aðrar þjóðir sætta sig við. Gott ef sáttin er ekki blandin stolti um að sjálfstæður gjaldmiðill sé partur af sjálfsvitund þjóðarinnar.

Og það stolt er alla ævina greitt með ókjörum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim