Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist framlengingar á gæsluvarðhaldi yfir konu, sem fædd er árið 1981, vegna láts karlmanns á sextugsaldri á laugardagskvöldið. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir konunni rennur út í dag en krafist er áframhaldandi varðhalds á grundvelli rannsóknarhagsmuna til miðvikudagsins fjórða október.
Ævar Pálmi Pálmason yfirlögregluþjónn segir í samtali við DV að krufning hafi enn ekki skilað neinum niðurstöðum sem hann geti tjáð sig um. „Dánarorsök er enn óljós og rannsóknin í fullum gangi,“ segir Ævar. Um hvort lögregla hallist að saknæmu athæfi eða ekki segir Ævar: „Ég get ekkert tjáð mig um það.“
Hann segist fastlega reikna með því að Héraðsdómur Reykjavíkur samþykki kröfu um framlengingu gæsluvarðhalds en niðurstaða um það liggur fyrir laust fyrir kl. 16 í dag (frétt verður uppfærð).
Konan sem hér um ræðir hefur hlotið marga refsidóma fyrir fíkniefnalagabrot en ekki ofbeldisbrot eftir því sem DV er kunnugt um. Hún var handtekin á vettvangi á laugardagskvöldið, í íbúð í fjölbýlishúsi í Austurborginni. Tilkynning um málið barst lögreglu á laugardagskvöld og hélt hún þegar á staðinn og hóf þar endurlífgunartilraunir á manninum. Hann var í framhaldinu fluttur á Landspítalann, en var úrskurðaður þar látinn.
Krafa um framlengingu gæsluvarðhalds hefur verið samþykkt. Í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir:
„Kona um fertugt var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðuð í áframhaldandi gæsluvarðhald til 4. október á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á andláti karlmanns á sextugsaldri í íbúð fjölbýlishúss í austurborginni um síðustu helgi.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.“