Enn ríkir fullkomin óvissa um hvort að rússneski flotaforinginn, Viktor Sokolov, æðsti yfirmaður Svartahafsflota Rússa, sé lífs eða liðinn. Úkraínumenn lýstu því yfir í gær að Sokolov hefði verið meðal þeirra sem féllu í loftárás á höfuðstöðvar flotans í Sevastopol á Krímskaga síðastliðinn föstudag en Rússar hafa ekki viljað tjá sig um málið hingað til. Hins vegar birti varnarmálaráðuneyti Rússland myndband af fjarfundi þar sem sjá aðila, sem sannarlega líkist Sokolov, funda með æðstu ráðamönnum Rússland, þar á meðal Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra. Ekki fylgir þó sögunni hvenær fundurinn fór fram og því er talsverð óvissa uppi um afdrif flotaforingjans.
Fall Sokolov, sem er 61 árs gamall og afar reyndur hermaður, væri mikið áfall fyrir Rússa og í raun og veru sögulegur viðburður. Um væri að ræða æðsta stjórnenda flota sem hefði látið lífið í hernaði frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.
Sprengjum var varpað á höfuðsstöðvar rússneska flotans í borginni en auk Sokolov fullyrða Úkraínumenn að þrjátíu og þrír aðrir hermenn hafi látið lífið og yfir 100 hafi særst. Árásin er sögð hafa borið vinnuheitið „Krabbagildran“ en hún var framkvæmd þegar fundur rússneska yfirmanna fór fram í höfuðstöðvunum.
Rússar staðhæfa hins vegar að aðeins eitt mannsfall hafi átt sér stað í borginni. Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, neitaði að tjá sig um meint fall Sokolov og árásina á hefðbundnum blaðamannafundi í dag.