Hið vinsæla og árlega Kótilettukvöld Samhjálpar er 19. október og verður að þessu sinni haldið á Hilton Reykjavík Nordica. Líkt og venjulega verða spennandi skemmtiatriði í boði, gómsætur matur og happdrætti.
Þögla uppboðið sló í gegn í fyrra og verður endurtekið í ár en þar er meðal annars boðið upp á listaverk eftir Jóhannes Geir, Sigrúnu Eldjárn, Línu Rut og Ragnheiði Jónsdóttur.
Í ár bætist við skemmtileg nýung, Pop Up Boutique í anddyri hótelsins. Margir bestu hönnuðir Íslands hafa gefið flíkur í búðina og nefna má Steinunni, Sif Benedicta, Freebird og Andreu. Þekktir Íslendingar hafa sömuleiðis teygt sig inn í fataskápinn sinn og fundið eitthvað fallegt og lagt Samhjálp í té. Skór eftir Alexander Wang og Tory Burch verða í boði og glæsilegir nytjahlutir eftir hönnuðinn Önnu Þórunni. Það má því gera ráð fyrir fjörugu kvöldi og hægt að fara heim með nýjar gersemar í fataskápinn eða til að prýða heimilið.
Húsið opnar kl. 18.30. Dagskráin hefst kl. 19.00 og stendur til kl. 22.00. Boðið verður upp á gómsætar kótilettur ásamt meðlæti og því ætti enginn að fara svangur heim. Miðasala er hafin á tix.is.