Hátt í 6000 Reykvíkingar hafa þegar kosið um hugmyndir íbúa á Hverfidmitt.is en kosningu lýkur á miðnætti 28. september.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að mesta þátttakan í kosningunni er í Grafarholti og Úlfarsárdal en þar hafa 6,3% íbúa kosið. Í öðru sæti eru íbúar í Laugardal með 6,2 % og fast á hæla þeirra fylgja íbúar Árbæjar og Norðlingaholts með 6%. Í síðustu kosningum trónuðu íbúar Kjalarness á toppnum en fast á hælta þeim komu Árbær og Norðlingaholt og svo Laugardalur.
Hugmyndahöfundar slógu met síðastliðið haust við söfnun hugmynda og í öllum hverfum Reykjavíkur er að finna stórar, flottar og fjölbreyttar hugmyndir fyrir alla aldurshópa sem hægt er að kjósa um.
Oft eru örfá atkvæði sem ráða úrslitum um hvaða hugmyndir eru kosnar og því skiptir hvert atkvæði máli. Það er einfalt að kjósa og það er í lagi að kjósa oft. Hafið hugfast að það er samt síðast kosningin sem gildir. Borgarbúar eru hvattir til að kjósa á Hverfidmitt.is og auðkenna sig með rafrænum skilríkjum í lokin til að skila inn sínu atkvæði. Kosning er staðfest með Íslykli eða Rafrænum skilríkjum.