fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þrjú sjónarhorn á skattheimtu

Eyjan
Fimmtudaginn 21. september 2023 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjárlagaumræðan endurspeglar ekki stórvægilegan ágreining um markmið í heilbrigðismálum og velferðarþjónustu. Leiðir skilja fyrst og fremst þegar kemur að skattheimtu.

Eftir að fjárlagaumræðunni lauk á Alþingi hafa þau Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir fulltrúi Viðreisnar í fjárlaganefnd, í grein hér á Eyjunni, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar, í rökræðum á Sprengisandi, lýst afstöðu til skattheimtu frá þremur ólíkum sjónarhornum.

Þjóðarkakan

Þrátt fyrir halla á fjárlögum telur fjármálaráðherra að lækka eigi skatta í þeim tilgangi að draga úr launakröfum verkalýðsfélaga.

Formaður Samfylkingar vill aftur á móti hemja launahækkanir með verulegri hækkun skatta og auknum útgjöldum til heilbrigðismála og velferðarþjónustu.

Fulltrúi Viðreisnar í fjárlaganefnd bendir svo á að Ísland er í hópi þeirra landa, sem sker stærstu sneiðina af þjóðarkökunni fyrir skattheimtuna án þess að standa þeim sömu löndum fyllilega á sporði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

Hún bendir á að munurinn liggi að miklu leyti í umtalsvert hærri vaxtaútgjöldum, þrátt fyrir minni skuldir. Rétt sé að taka á þeim kerfislega vanda til að auka svigrúm ríkissjóðs í velferðarmálum fremur en að grípa til skattahækkana.

Hluthafafundur

Ég velti því fyrir mér hvernig hluthafafundur í fyrirtæki á samkeppnismarkaði myndi bregðast við aðstæðum eins og þessum.

Hugsum okkur forstjóra sem kynnir ársreikning á hluthafafundi. Ársreikningurinn sýnir minna svigrúm til innri uppbyggingar en samkeppnisfyrirtækin hafa vegna þess eins að forstjórinn kaus að taka lán þar sem þau eru tvöfalt til þrefalt dýrari.

Hver yrðu viðbrögð hluthafa? Er líklegt að meirihluti þeirra myndi kæra sig kollóttan? Er ekki hitt sennilegra að þeir myndu krefjast hagræðingar í fjármagnskostnaði?

Við berum okkur saman við sterkustu velferðarlöndin um skatta og útgjöld. En hvers vegna ekki um hagkvæmni í rekstri líka?

Ríkissjóður Íslands greiðir hærra hlutfall af þjóðarútgjöldum í vexti en skuldugustu ríki Evrópu. Vaxtaútgjöld eru tvöfalt hærri en útgjöld öflugustu hervelda álfunnar til varnarmála.

Þessi hlutfallslegi ójöfnuður helst þótt vextir lækki.

Ójöfnuður og óhagkvæmni

Flokkur fjármálaráðherra talar fyrir meiri hagkvæmni í rekstri ríkissjóðs. En hann er á móti hagkvæmni þegar kemur að fjármagnskostnaði. Það er vegna þess að hann vill viðhalda tvískiptu hagkerfi þar sem sumir hafa betri aðstöðu á fjármálamörkuðum en aðrir.

Velferðarkerfið geldur fyrir það, rétt eins og heimili og fyrirtæki á innlendum samkeppnismarkaði.

Þingmenn Samfylkingar eru heldur ekki á móti hagræðingu í ríkisrekstri og standa vitaskuld fyrir aukinn jöfnuð.

Þeir vilja hins vegar ekki taka á þessum ójöfnuði vegna nýrrar skilgreiningar á kjarna jafnaðarstefnunnar. Hún felst meðal annars í því að láta öðrum flokkum eftir að fjalla um mál, sem taka tíma og gætu valdið ágreiningi.

Afstaða Viðreisnar virðist aftur á móti byggjast á þeirri einföldu hugmyndafræði að eyða beri þeim ójöfnuði, sem tvískipting þjóðarbúskaparins hefur í för með sér, þótt það taki tíma.

Það myndi bæta samkeppnisstöðu ríkissjóðs gagnvart velferðarkerfi annarra Norðurlanda. Jafnframt myndi hagur heimila batna og samkeppnismismunun fyrirtækja á heimamarkaði og útflutningsfyrirtækja jafnast.

Það gerist ekki á morgun, en er samt ekki fjarlægur draumur.

Pólitísk fjarsýni og nærsýni

Ólík sjónarhorn flokkanna til ríkisfjármála eiga sem sagt líka rætur í mismunandi fjarsýni og nærsýni í pólitískum skilningi.

Á síðari árum hafa sérfræðingar í almannatengslum í ríkari mæli en áður ráðlagt forystumönnum í stjórnmálum að einskorða boðskap sinn við þá hluti sem gera má strax og leiða hjá sér þau viðfangsefni, sem helst valda deilum.

Fyrir vikið víkja langtímasjónarmið um þróun samfélagsins gjarnan fyrir skyndilausnum, hugmyndafræðin dofnar og kerfislegar skekkjur í búskap þjóðarinnar eru ekki leiðréttar.

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra fyrir viku talaði formaður Viðreisnar hins vegar, ólíkt formönnum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, um mikilvægi þess að nýta tímann fram að næstu kosningum til að horfa lengra fram á veginn um þróun samfélagsins.

Gott er til þess að vita að það sjónarhorn er ekki horfið úr rökræðum um ríkisútgjöld og skattheimtu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim