Bandaríkjamaðurinn Dave MacPherson var 22 ára háskólanemi þegar hann heimsótti Disneyland í Anaheim í Kaliforníu á opnunardaginn 17. júlí árið 1955.
Hann keyrði 16 km leið frá Long Beach og var mættur í röðina klukkan tvö nóttina fyrir opnunardaginn. Hann náði að vera á undan 6000 öðrum gestum og stóð fremstur í röðinni þegar opnaði. MacPherson fékk þó ekki miða númer 1 því sá miði var frátekinn fyrir aðalmanninn, sjálfan Walt Disney.
„Ég ákvað að ég vildi verða fyrstur í röðinni. Fyrsti gesturinn sem myndi ganga inn í garðinn sem væri ekki ættingi Walts eða einhver frægur. Fyrsti venjulegi gaurinn sem myndi ganga inn um hliðið,“ segir MacPherson þegar hann rifjar upp þennan dag fyrir rúmum 68 árum.
Eins og geta má þá var mikil örtröð í garðinum á opnunardaginn en MacPherson segist þó hafa skemmt sér konunglega í Jungle Cruise og á svæði tileinkað Peter Pan. Síðar á lífsleiðinni varð MacPherson farsæll lögmaður, en hann gleymdi aldrei barnsgleðinni og hefur alla tíð verið dyggur aðdáandi Disney og nýtt lífstíðaraðgöngumiðann, sem hann fékk sem fyrsti viðskiptavinurinn, vel og heimsótt Disneyland reglulega. Árlega fór hann eins konar pílagrímsferð í garðinn með vinum hans og fjölskyldu, allt til ársins 2018 þegar hann lést, 85 ára að aldri.
Hann hélt þó ekki í miðann sjálfan sem hann greiddi 1 dal fyrir á sínum tíma, heldur kort sem fylgdi með miðanum, svokallað complimentary card. „Á þessum tíma borgaði fólk sig inn með aðgöngumiða og keypti síðan bunka af miðum sem giltu í hin ýmsu leiktæki. Ég veit ekki hvað varð um aðgöngumiðann minn sem ég borgaði einn dal fyrir.“
Árlega fékk hann nýjan miða. „Í janúar ár hvert beið ég spenntur eftir nýjum miða, sem gilti síðan í eitt ár í öllum Disneygörðum og ég fékk nýjan miða á hverju ári frá árinu 1955. Í byrjun fékk ég bara miða úr pappír eða pappa og um árabil var hann silfurlitaður. Síðustu árin var hann rauður að lit og í stærð eins og kreditkort og á honum stóð „VIP MAIN ENTRANCE PASS.“ Á bakhliðinni var nafnið mitt og þar stþoð einnig: „Gildir fyrir korthafa og þrjá gesti.“
Disneyland hefur frá opnun dregið að sér milljónir aðdáenda líkt og MacPherson, bæði í Anaheim og í görðunum sem opnuðu síðar í Orlando, París í Frakklandi, Shanghai, Tokyo og Hong Kong