Í gær var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem BL ehf. höfðaði á hendur viðskiptavini fyrirtækisins. BL rekur umboð fyrir 11 bílaframleiðendur hér á landi auk viðgerðarþjónustu.
BL krafðist þess að viðskiptavinurinn, sem flutti mál sitt sjálfur fyrir dómi, yrði dæmdur til að greiða fyrirtækinu skuld að fjárhæð 55.308 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 1. september 2022. Auk þess krafðist fyrirtækið þess að viðskiptavinurinn yrði dæmdur til að greiða málskotnað.
Viðskiptavinurinn krafðist þess að krafa BL yrði lækkuð um 25.408 krónur og að fyrirtækið yrði dæmt til að greiða málskostnað.
Upphaf málsins má rekja til greiningar á bilun í bifreið viðskiptavinarins og viðgerðar á henni. Bifreiðin var nýskráð í lok janúar 2020. Viðskiptavinurinn kom með með bifreiðina á verkstæði BL sumarið 2022 „vegna gaumljóss í mælaborði sem gaf til kynna villumeldingu um hleðslulúgu.“
Segir í dómnum að starfsmenn BL hafi greint bilunina á þann hátt að skipta þyrfti um rofa tengdan lúgunni. Viðskiptavinurinn kom öðru sinni með bifreiðina á verkstæði BL, í lok sumars 2022, og var þá skipt um rofann.
BL gaf í kjölfarið út tvo reikninga til viðskiptavinarins. Einn var vegna greiningar á biluninni og var fjárhæð hans 25.408 krónur. Hinn var vegna viðgerðarinnar og stóð fjárhæðin í 29.900 krónum. Var eindagi þeirra beggja 1. september 2022. Viðskiptavinurinn viðurkenndi að honum bæri að greiða síðarnefnda reikninginn en hafnaði því að það sama gilti um hinn fyrrnefnda.
Lögmaður BL hélt því fram fyrir dómi að viðskiptavininum bæri að greiða reikningana þar sem hann væri tilkominn vegna kaupa á vörum og þjónustu af fyrirtækinu. Hélt hann því einnig fram að bifreiðin hefði verið fallin úr ábyrgð þegar þjónustan var veitt.
Viðskiptavinurinn hélt því fram fyrir dómi að starfsmaður BL hefði tjáð honum í símtali, eftir að bilunin var greind, að viðgerðin myndi kosta 28-29 þúsund krónur. Þar af leiðandi bæri honum að greiða eingöngu reikninginn sem hljóðaði upp á 29.900 krónur en ekki þann sem nam 25.408 krónum. Hann vildi einnig meina að bifreiðin kynni að hafa verið í ábyrgð þegar þjónustan var veitt.
Í niðurstöðu dómsins segir að óumdeilt sé að viðskiptavinurinn hafi komið tvisvar á verkstæði BL. Í fyrra skiptið hafi bilunin verið greind og í seinna skiptið hafi verið gert við hana. Það sé því óumdeilt að báðir reikningarnir séu tilkomnir vegna þjónustu sem BL lét viðskiptavininum í té að beiðni hans.
Einnig kemur fram að engin gögn liggi fyrir sem styðji þá fullyrðingu viðskiptavinarins að starfsmaður BL hafi tjáð honum að heildarkostnaður við viðgerðina, að meðtalinni greiningu á biluninni, yrði 28-29 þúsund krónur. Af framburði viðskiptavinarins og deildarstjóra verkstæðis BL megi ráða að upp hafi komið misskilningur um viðgerðarkostnaðinn. Hann hafi falist í að starfsmaður hafi nefnt fjárhæðina sem áætlaðan kostnað við viðgerðina sjálfa en viðskiptavinurinn hafi talið að þar væri meðtalinn kostnaður við greiningu á biluninni. Þótt upplýsingagjöf til viðskiptavinarins gæti mögulega hafa verið nákvæmari er það niðurstaða Héraðsdóms að það leiði ekki til þess að greiðsluskylda hans vegna kostnaðarins við greiningu á biluninni falli niður.
Héraðsdómur segir einnig að gögn málsins sýni ekki fram á að bifreiðin hafi verið í ábyrgð þegar bilunin kom upp en eins og áður segir var hún nýskráð í lok janúar 2020.
Þótt viðskiptavinurinn hafi fallist á að honum bæri að greiða síðari reikninginn, 29.900 krónur vegna viðgerðarinnar, greiddi hann þann reikning ekki heldur.
Er það því dómur Héraðsdóms Reykjavíkur að viðskiptavininum beri að greiða BL báða reikninganna, samtals 55.308 krónur ásamt dráttarvöxtum frá eindaga þeirra beggja, 1. september 2022. Þar að auki var viðskiptavinurinn dæmdur til að greiða BL 350.000 krónur í málskostnað.
Dóm Héraðsdóms má lesa hér.