Í hjartnæmri færslu á Instagram tilkynnir hin breska Nicky Newman fylgjendum sínum eigið andlát, tíu dögum eftir að hún tilkynnti að hún ætlaði að hætta í krabbameinsmeðferð.
Newman sem var 35 ára vakti mikla athygli á miðlinum undir notendanafninu Nicknacklou fyrir opinskáar, hjartnæmar og sorglegar færslur hennar sem fjölluðu um baráttu hennar við brjóstakrabbamein og þau áhrif sem greiningin og slík reynsla hefur á daglegt líf, sjúklinginn og aðstandendur.
„Ef þú ert að lesa þetta þýðir það að ég er látin, ég náði þannig fimm og hálfu ári, ekki slæmt með brjóstakrabbamein á 4 stigi. Og ekki segja „hún tapaði baráttunni„, ég tapaði engu, krabbameinið tók á endanum við og það er allt í lagi, við vissum öll að það myndi gerast,“ segir Newman.
„Ég held að við séum aldrei tilbúin að heyra þessi orð, við höldum að við séum ódrepandi og töfralækning muni birtast, en sannleikurinn er sá að við lifum öll þessu lífi dag frá degi (ég vissi bara að mínir dagar yrðu færri).“
Newman hvetur fylgjendur sína, sem eru um 270 þúsund að lofa sér að þykja vænt um þá sem eru í kringum þá og gefa vinum og ástvinum kröftug faðmlög. „Gríptu lífið! Þú veist aldrei hvað er handan við hornið, svo ekki taka neinu sem sjálfsögðum hlut.“
Segir hún fylgjendur sína orðna hluta af arfleifð sinni, eða „Instagramfjölskylduna„ (e. Instagramily) eins og maðurinn hennar kallaði fylgjendur hennar. „Ég þakka ykkur öllum af hjarta mínu fyrir að vera hér hvert skref á leið minni. Það er meira í vændum (með ótrúlegum hlutum sem eru í vinnslu) sem mun miða að því að halda arfleifð minni hér gangandi, svo haltu áfram að fylgja aðganginum og haltu áfram að vera sú ótrúlega fallega mannvera sem þú ert nú þegar! Ég trúi á orku og ef fólk heldur í þá jákvæðu orku sem við höfum búið til með þessari og öðrum sambærilegum síðum, þá mun ég alltaf vera með þér. Elska ykkur öll,“ segir Newman í eigin eftirmælum. Segir hún eiginmanninn jafnframt munu pósta minningarorðum um sig, því þeim hafi langað að kveðja hana og tilkynna fylgjendum hennar á sama tíma.
Newman greindist fyrir fimm og hálfu ári með 4. stigs brjóstakrabbamein, sem síðar hafði einnig breiðst út í bein hennar. Skilaboð hennar á samfélagsmiðlum hvöttu fólk alltaf til að „fara og grípa lífið“ og skoða jafnframt brjóstin reglulega (það á við um öll kyn).
Þegar Newman greindist var hún var í miðri frjósemismeðferð með eiginmanni sínum, þegar hún tók eftir breytingum á brjóstinu og kvartaði undan miklum bakverkjum. Innan við viku síðar hafði hún misst fóstur og var greind með ólæknandi brjóstakrabbamein. Auk þess að hvetja fylgjendur sína til að fagna lífinu, kom hún að og styrkti fjölda fyrirtækja og góðgerðarsamtök á síðustu árum, eins Lounge Underwear og Women’s Best. Hún starfaði með Boho Betty að skartgripalínu og ágóðinn rann til góðgerðarmála.
Newman hvatti líka hundruð manna til að fá sér eldingarflúr, tákn sem hún sagði minna sig á að njóta hvers dags. Sem Newman gerði eftir bestu getu, á síðasta ári var hún viðstödd hjónaband systur sinnar, ferðaðist til Tenerife og Finnlands og fór eina ferð til Disneylands, sem hún kallaði „annað heimili“ sitt.
Þegar þetta er skrifað hafa um 26 þúsund athugasemdir verið skrifaðar við hinstu færslu Newman, þar sem fólk minnist hennar með mikilli hlýju og virðingu.