Öllum þeim sem geta tengst Ljósleiðaranum gefst tækifæri á að tífalda hraða sinn frá og með 1. október næstkomandi. Í fréttatilkynningu frá Ljósleiðaranum segir að með þessu sé Ljósleiðarinn að horfa til þeirrar þróunar sem sé að eiga sér stað og undirbúa heimilin í landinu fyrir framtíðina. Hámarkshraði í boði um Ljósleiðarann verður frá og með 1. október 10 gígabitar en var áður 1 gígabiti og verður í boði hjá öllum fjarskiptafélögum á öllu þjónustusvæði Ljósleiðarans.
Dagný Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Ljósleiðarans:
„Ljósleiðarinn leggur áherslu á að tryggja hraðan, öruggan og hnökralausan aðgang að tækifærum framtíðarinnar. Við vorum fyrsta fyrirtækið sem bauð upp á 1 gígabita hraða og nú ætlum við að bjóða öllum þeim sem geta tengst okkar ljósleiðara upp á 10 gígabita hámarkshraða. Við höfum alltaf talað fyrir því að heimilin eigi að vera með mikla bandbreidd og að aðgangur að netinu eigi að vera hnökralaus og hraður. Það er því ákaflega ánægjulegt að geta boðið þessa þjónustu á öllu okkar þjónustusvæði frá og með næstu mánaðamótum.“
Til þess að panta TÍU GÍG hafa notendur samband við sitt fjarskiptafyrirtæki.
Nánari upplýsingar um þjónustuna má finna hér.