Viðar Halldórsson, félagsfræðingur segir að íslenska landsliðið og þjálfarateymi íslenska landsliðsins hafi gert allt vitlaust í undirbúningi fyrir leik gegn Lúxemborg í síðustu viku.
Hann segir hins vegar að breyting hafi orðið á í undirbúning fyrir leikinn gegn Bosníu sem fram fór í gær.
Íslenska liðið fékk skell gegn Lúxemborg á föstudag og segir Viðar. „Síðustu tveir leikir karlalandsliðsins í knattspyrnu eru skólabókardæmi um þetta. Að mínu mati (heiman úr stofu) þá gerði landsliðið “allt rangt” í tengslum við fyrri leikinn (gegn Lúxemborg) en “allt rétt” í tengslum við seinni leikinn (gegn Bosníu) og því fór sem fór,“ segir Viðar.
Viðar útskýrir svo hvað það var í undirbúningi leiksins sem var rangt. „Í aðdraganda fyrri leiksins var leikmönnum umtalað um að liðið yrði af ná í 6 stig úr þessum tveimur leikjum. Það var greinilega uppleggið innanhúss og voru þau skilaboð send út til þjóðarinnar. En að stilla verkefninu upp með þessum hætti er varhugavert fyrir ýmissa hluta sakir. “
Hann segir að það séu ekki góð skilaboð fyrir leikmenn að vera með á bakinu að allt annað en sigur séu hreinustu vonbrigði.
„Til dæmis þá er ekki endilega gott fyrir leikmenn að vera með þau skilaboð á bakinu að þeir verði að vinna. Og enn fremur að setja þau skilaboð út í samfélagið. It goes without saying að lið fara í leiki til að vinna. Það er þó algjör óþarfi að stilla hlutunum upp með þeim hætti hvort sem er inná við eða útávið. Slík árangursmarkmið setja óþarfa pressu á leikmenn, sérstaklega þar sem úrslit leikja ráðast af fjölmörgum þáttum sem liðsmenn hafa jafnvel litla sem enga stjórn á. Þetta getur því leitt til þess að spennustig leikmanna verður of hátt þar sem þeir fá þá tilfinningu að þeir hafi öllu að tapa. Þá hikstar vélin – og þá sérstaklega ef á móti blæs. Þor leikmanna að halda í boltann þverrar, og sjálfstraustið og stemningin lekur úr liðinu;“ skrifar Viðar og heldur svo áfram.
„Liðið fékk á sig mark eftir 8 mínútur í fyrri leiknum – í fyrri leiknum af tveimur sem það varð að vinna. Þetta setti liðið í djúpa holu – sem varð dýpri en hún þurfti að vera með öðrum undirbúningi – og liðið gat ekki unnið sig úr þeirri holu. Það er áhugavert að þjálfarinn talaði um að liðið hafi ekki byrjað að spila að eðlilegri getu fyrr en undir lok leiks, öllu heldur þegar liðið var orðið manni færri og komið tveimur mörkun undir. Þá hafði liðið engu að tapa, ólíkt því sem var í upphafi leiks. Einnig er varasamt að horft sé til tveggja leikja – og tala um þá með þessum hætti – og það degi fyrir fyrri leikinn. Það má af þeim sökum setja spurningamerki við fókus liðsins á fyrri leikinn sem framundan var. Áherslan á að liðið yrði að ná í 6 stig, sem sett var fram innanhúss sem og fyrir alþjóð, hjálpaði liðinu ekki í leiknum heldur þvert á móti átti þátt í brotlendingu þess.“
Viðar vill meina að Age Hareide og hans leikmenn hafi svo tæklað síðari leikinn á allt annan hátt.
„Hvað varðar seinni leikinn þá var allt önnur og árangursríkari nálgun upp á teningnum sem birtist í gjörbreyttri ásýnd og spilamennsku liðsins. Engin stór orð voru höfð fyrir leik. Væntingar um sigra og árangur voru ekki keyrðar upp. Leikmenn nefndu aftur á móti í viðtölum eftir leik að þeir hafa leitað aftur í “grunngildin” sem snéru frekar að frammistöðu í ákveðnum þáttum leiksins frekar en verða að vinna. Fókusinn var á verkefnið frekar en úrslitin. “Einn leikur í einu” var enn fremur viðkvæðið – en ekki tveir eins og fyrir fyrri leikinn. Einnig nefndu leikmann að liðið hafi “þorað að halda boltanum og spila” og leikmenn hafi “treyst hver öðrum”, sem eru hvort tveggja dæmi um að undirbúningurinn hafi verið góður, þar sem spennustig liðsins var gott og liðstemningin örvandi og heilbrigð;“ skrifar Viðar og heldur örlítið áfram.
„“Við lærum ekki af reynslunni, við lærum af því að velta fyrir okkur reynslunni“ sagði bandaríski uppeldisfrömuðurinn John Dewey. Með öðrum orðum þá er mikilvægt að huga að væntingastjórnun í undirbúningi leikja. Undirbúningurinn á að hjálpa liðum að takast á við krefjandi verkefni en ekki að setja stein í götu þeirra.“