Roslyn Wagstaff, hin kanadíska ekkja flugmannsins Arthur Grant Wagstaff, hefur stefnt Sjóvá á nýjan leik vegna flugslyssins í Barkárdal árið 2015. Roslyn og börn hennar þrjú fengu samanlagt 9 milljón krónur í bætur árið 2021 en kröfðust tæplega 48 milljóna.
„Þetta eru leifar af fyrra málinu. Hlutar þess sem var vísað frá,“ segir Bjarni Þór Sigurbjörnsson, lögmaður Roslyn aðspurður um málið. Hann gat ekki sagt hver krafan væri núna.
Flugslysið átti sér stað þann 9. ágúst árið 2015 í Barkárdal í Hörgársveit í Eyjafirði. Arthur og Arngrímur Jóhannsson, einn þekktasti flugmaður Íslands, tóku á loft á lítilli sjóflugvél við Akureyri og hugðust lenda í Keflavík. Til stóð að fljúga vélinni þaðan til Minneapolis í Bandaríkjunum þar sem átti að selja vélina.
Þegar vélin skilaði sér ekki til Keflavíkur á áætluðum tíma, klukkan 16:20, var farið að leita að henni. Um klukkan 20:30 fann þyrla Landhelgisgæslunnar brennt brak vélarinnar í fjallshlíð, innarlega í dalnum.
Arngrímur komst út og lifði slysið af, en með alvarlega brunaáverka. Arthur, sem sat í farþegasæti vélarinnar, lést í slysinu.
Eftir meira en þriggja ára rannsókn á málinu tók Sjóvá ákvörðun í mars árið 2019 um að greiða Wagstaff fjölskyldunni ekki bætur vegna slyssins. En samkvæmt skilmálum tryggingaskírteinis sem Arngrímur hafði keypt var hann einn tryggður sem flugmaður vélarinnar og svo farþegar ef einhverjir væru.
Wagstaff fjölskyldan höfðaði hins vegar mál í júní sama ár og benti á að í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa kæmi fram að Arthur hafi ekki verið að fljúga vélinni.
Krafa fjölskyldunnar voru um 48 milljónir króna en Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Roslyn 3 milljónir og hverju barni 2 milljónir. Einungis var fallist á kröfur er lutu að útfararkostnaði og miskabótum. Bótakröfu vegna missis framfæranda var vísað frá.