Sísí Ingólfsdóttir listakona hefur sett íbúð sína á Snorrabraut 65 í Reykjavík á sölu. Smartland greindi fyrst frá.
„Jæja krakkar mínir, það er bara komið að þessu. Erum búin að selja aðra íbúðina, festa kaup á húsnæði sem rúmar okkur öll og því þessi perla að detta inn á fasteignavefinn. Æðisleg staðsetning, húsið nýsteinað og allskonar viðgerðir, sem sagt allt í tipptopp standi. Við höfum átt virkilega góðar stundir á Snorrabrautinni en erum spennt að hefja nýjan kafla (ekkert sérstaklega langt frá),“ segir Sísí í færslu á Facebook.
Hún og unnusti hennar, Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, hafa keypt sér húsnæði saman. Parið kynntist á síðasta ári og opinberaði samband sitt á Facebook í byrjun árs og trúlofaði sig 28. júní.
Sjá einnig: Biggi og Sísí setja upp hringa
Sísí á fjögur börn frá fyrra sambandi og stjúpdóttur og Biggi á tvö börn úr fyrra sambandi.
Íbúðin er 130,6 fm, fimm herbergja, efri sérhæð í fjöleignarhúsi sem byggt var árið 1942. Íbúðin skiptist í eldhús og borðstofu í sameiginlegu rými, stofu, fjögur svefnherbergi og er útgengt á suðursvalir úr einu þeirra, og baðherbergi. Geymslur eru i kjallara, undir útitröppum og í geymslurisi.
Nánari upplýsingar um eignina má finna hér.
Sísí lauk BA gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands og MA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Á vef Listaval kemur fram að hún hefur verið upptekin að kynjahlutverkum og birtingarmyndum þeirra og sögu femínismans ásamt því að skoða móðurhlutverkið út frá ólíkum sjónarhornum og oftar en ekki á húmorískan hátt. Nýlega kom Hin íslenska litabók út með teikningum Sísíar. Biggi lögga er þekktur samfélagsrýnir og vekja pistlar hans gjarnan mikla athygli.