fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Hugmynd um Parísarhjól sett í farveg – Þótti óraunhæft fyrir sex árum

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 7. september 2023 20:00

Myndin er samsett. Myndir: Skjaskot-ja.is/Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fundi borgarráðs Reykjavíkur í dag var samþykkt tillaga Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að borgar- og atvinnuþróunarteymi á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði falið að kanna raunhæfni hugmyndar um að Parísarhjóli verði komið fyrir í tilraunaskyni til nokkurra ára á Miðbakka, við gömlu höfnina í Reykjavík.

Það hafa áður verið uppi hugmyndir um að koma upp Parísarhjóli í Reykjavík. Hjónin Marta Jónsson og Úlfar Ingi Jónsson, sem búsett hafa verið lengi í London, sóttu til að mynda um lóð í því skyni árið 2017. Var umsóknin lögð fram í nafni fyrirtækis hjónanna, Reykjavik Eye, sem vísar til London Eye Parísarhjólsins, sem er eitt af helstu kennileitum þessarar höfuðborgar Bretlands.

Sjá einnig: Sækja um lóð fyrir parísarhjólið „Hjarta Reykjavíkur“

Umsókninni var hins vegar á endanum hafnað í borgarráði og þá ekki síst með vísan til neikvæðrar umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar. Meðal staðsetninga sem sagðar voru komu til greina var Örfirisey sem er ekki langt frá Miðbakka og er eins og hann hluti af svæði Faxaflóahafna. Þar sem hjólið taldist ekki til hafnsækinnar starfsemi þótti sú staðsetning ekki henta.

Í umsögninni kom jafnframt fram að hjólið myndi hafa mikil og neikvæð sjónræn áhrif á borgarlandslagið:

„Reykjavík einkennist af skýrum sjónlínum til hafs og fjalla. Leitast skal við að halda þeirri ásýnd sem sérstöðu borgarinnar. Einnig telst hæð hjólsins ekki falla vel inn í þá lágu byggð sem einkennir borgina.“

Í umsögninni var einnig lýst miklum efasemdum um að mannvirki af þessu tagi hentaði íslensku veðurfari:

„Þá er lýst yfir áhyggjum af þeirri miklu hæð sem hjólið er í og velt er vöngum yfir hversu vel hjól af þessari stærðargráðu hentar íslenskum aðstæðum með t.d. tilliti til vinda.“

Þess ber þó að geta að þær hugmyndir sem uppi eru núna gera ráð fyrir að Parísarhjólið við Miðbakka verði aðeins starfrækt á sumrin.

Margar hugmyndir uppi en Parísarhjólið í sérstakan farveg

Í tillögunni sem samþykkt var á fundi borgarráðs í dag kemur fram að hún byggi á minnisblaði starfshóps, sem skipaður var nokkrum starfsmönnum borgarinnar, um haftengda upplifun og útivist við útisvæði Faxaflóahafna. Í minnisblaðinu komi fram ýmiss konar hugmyndir að haftengdri upplifun og útivist við hafnarsvæðið sem sagt er að borgarstjóri muni fylgja eftir en sérstök ástæða sé til að setja hugmyndina um Parísarhjól í þennan sérstaka farveg, sem tillagan kveður á um.

Enn fremur segir í tillögunni að eðlilegt sé að þetta verkefni verði hugsað á viðskiptalegum grunni, án fjárútláta borgarinnar eða hafnarinnar en jafnframt mikilvægt að hugað verði að útfærslu almennings- og leiksvæða á Miðbakka samhliða uppsetningu slíks hjóls, reynist hugmyndin raunhæf. Ljóst sé að umtalsvert flækjustig geti fylgt framkvæmdinni og útfærslu hennar og að hafa þurfi víðtækt samráð um það og vinna nauðsynlega greiningu og vinnu.

Í minnisblaði starfshópsins kemur fram að hópurinn telji að mikilvæg tækifæri liggi til aukinnar uppbyggingar á haftengdri upplifun og útivist við hafnarsvæði Faxaflóahafna. Slík aðstaða og upplifun geti eflt efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbærni á svæðinu. Menningin og sagan geti þar spilað stórt hlutverk en spennandi nýjungar geti auk þess skapað sterka og öfluga nýja sögu og komið Reykjavíkurborg á sama kort og aðrar hafnarborgir sem hafi eflt ásýnd sína og notkun strand- og hafnarsvæða.

Bryggjuböð og risaróla við Hörpu

Þegar kemur að hafnarsvæðinu norðan við Hörpu leggur hópurinn meðal annars til að  komið verði upp svokölluðum Bryggjuböðum sem verði heitir pottar með útsýni yfir haf og fjöll. Hópurinn leggur einnig til að á svæðinu verði fljótandi gufubað, fljótandi kaffihús eða gróðurhús sem geti skapað „stórkostlega upplifun“, og einnig risaróla sem róli í áttina að hafi.

Í minnisblaði hópsins er lagt til að við Miðbakka verði torgið sem þar er eflt enn frekar með sköpun dvalarsvæðis og innleiðingu gróðurs og götutrjáa. Á Miðbakka eru sögð tækifæri til aðstöðu fyrir lítil þjónusturými eða torgsölu og markaði. Loks er lagt til að við Miðbakka verði komið upp aðstöðu fyrir „Parísarhjól Reykjavíkur“ á sumrin.

Minnisblaðið er hluti af skýrslu hópsins þar sem lagðar eru fram margvíslegar tillögur til að efla haftengda upplifun og útivist á helstu hafnarsvæðum Faxaflóahafna í borginni og helstu svæðum í Reykjavík sem næst eru sjónum. Tillaga var samþykkt, á þessum fundi borgarráðs fyrr í dag, um að vinna frekar úr skýrslu og tillögum starfshópsins.

Ekki er tekið beint fram í tillögu borgarstjóra um Parísarhjólið hvers vegna ástæða sé til að setja það í sérstakan farveg. Leiða má líkum að því að það eigi að gera í ljósi þess að um flókna framkvæmd sé að ræða sem þar að auki skuli ekki fela í sér nein fjárútlát fyrir Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir.

Eins og áður segir var tillagan samþykkt í borgarráði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu, Kjartan Magnússon og Hildur Björnsdóttir, samþykktu tillöguna á þeirri forsendu að hvorki Reykjavíkurborg né Faxaflóahafnir beri nokkurn kostnað af framkvæmd eða rekstri Parísarhjólsins og einungis verði um einkaframkvæmd og verkefni rekið af einkaaðilum að ræða.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í Borgarráði, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, gerði í bókun við tillöguna athugasemdir við hugmyndir í skýrslu starfshópsins um að nauðsynlegt sé að ráðast í frekari landfyllingar til að láta sum áform í skýrslunni verða að veruleika. Kolbrún segir Parísarhjól vera skemmtilega hugmynd en spyr hvort nauðsynlegt sé að fara í landfyllingar til að finna því stað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Krafan um bann við laxeldi er krafa um að svipta fólki vinnunni, voninni og eignunum“

„Krafan um bann við laxeldi er krafa um að svipta fólki vinnunni, voninni og eignunum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri pirraður á því hvernig RÚV talar um Miðflokkinn

Snorri pirraður á því hvernig RÚV talar um Miðflokkinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórhallur sendi Íslandsbanka bréf vegna vaxtahækkunarinnar – Þetta er svarið sem hann fékk

Þórhallur sendi Íslandsbanka bréf vegna vaxtahækkunarinnar – Þetta er svarið sem hann fékk
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mannskæður hernaður Rússa í Úkraínu – „Við nálgumst tölur eins og voru í síðari heimsstyrjöldinni“

Mannskæður hernaður Rússa í Úkraínu – „Við nálgumst tölur eins og voru í síðari heimsstyrjöldinni“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl