Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er að ljúka við gerð skýrslu um hnefahögg mótmælanda, konu sem handtekin var við Reykjavíkurhöfn á þriðjudag. Konan, sem heitir Nic en eftirnafnið liggur ekki fyrir, er samverkakona Anahitu Babaei og Elissu Biou sem festu sig við möstur Hvals 8 og 9 í vikunni.
„Þetta fer til héraðssaksóknara, ofbeldi gagnvart opinberum starfsmanni,“ segir Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi.
Býst hann við því að skýrsla um málið verði brátt tilbúin og verði send annað hvort í dag eða á morgun. Það sé svo héraðssaksóknara að rannsaka málið og taka ákvörðun um ákæru.
Aðspurður um hvort lögreglumaðurinn hafi fengið einhvern áverka af högginu segist Guðmundur Páll ekki vita það.
Á meðan mótmælunum, sem stóðu yfir í 33 klukkutíma, stóð fór Nic í eitt sinn inn á svæði sem tileinkað var fjölmiðlafólki. En lögreglan hafði girt svæðið af og almenningur mátti ekki koma nálægt skipunum. Aðeins maki Anahitu, maður að nafni Micah, hafði heimild til þess að vera inni á girta svæðinu.
Í viðtali við Vísi lýsti Nic atburðarásinni. Í eitt skipti sem Micah brá sér frá hafi Anahita kallað og virst vera í vanda. Hafi Nic þá farið inn á svæðið til að reyna að láta Anahitu vita að Micah yrði kominn innan skamms. Sagðist Nic ekki hafa ætlað að fara neitt lengra en inn á fjölmiðlasvæðið.
Á leið sinni til baka hafi lögreglumaður komið og gripið þéttingsfast um handlegginn á henni. Sýndi Nic marbletti á sér því til stuðnings. Hafi henni brugðið við þetta og ósjálfrátt slegið frá sér en þetta hafi gerst hratt og verið allt í móðu.
Þá var Nic færð með valdi burt og sagt að hún væri handtekin fyrir árás á lögreglumann.
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf, hefur lagt fram kæru á hendur Anahitu og Elissu. Að sögn Guðmundar Péturs Guðmundssonar, lögreglufulltrúa hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru þær kærðar fyrir húsbrot.
Ekki er komin fram nein bótakrafa, svo sem vegna hugsanlegra skemmda eða tapaðra veiðistunda, en það yrði þá ekki lagt fram núna heldur sem einkaréttarkrafa síðar.
„Það er búið að ræða við þessar dömur einu sinni og ég reikna með því að það verði rætt við þær aftur, einhvern tímann. En þetta tekur allt sinn tíma,“ segir Guðmundur Pétur. Aðeins frumrannsókn hafi farið fram á málinu.
Aðspurður um hvort konurnar, sem eru breskar og franskar, séu í farbanni segir Guðmundur Pétur svo ekki vera.