Damir Muminovic var gestur í hlaðvarpsþættinum, Götustrákar þar sem þeir félagar Bjarki Viðarsson og Aron Mímir fóru yfir hlutina með varnarmanni Breiðabliks.
Damir hefur verið afar farsæll leikmaður í liði Breiðabliks undanfarin ár og átt stóran þátt í góðum árangri liðsins. Í þættinum var hann spurður út í hina ýmsu hluti og meðal annars þetta.
„Hvort myndiru frekar, það er forsíðumynd af þér á DV haldandi á Carlsberg þar sem fyrirsögnin er „Ég á Kópavog“, eða næst þegar þú færð gult spjald þá hendir þú í TikTok dans,“ segir Bjarki Viðarsson, annar af stjórnendum þáttarins.
Damir var ekki lengi að hugsa sig um. „Ég tek DV, ég hef einu sinni komist í ömurlega umfjöllun í DV þegar ég var 18 ára. Mig minnir að þetta hafi verið Óskar, ég var 18 ára pjakkur alltaf á djamminu. Ég held að það hafi staðið Damir kýs áfengi frekar en fótboltann,“ segir Damir.
Það var þó ekki Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks sem skrifaði þetta en hann starfaði á DV á þessum árum. Það var Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans í dag sem skrifaði um að Damir væri í agabanni þar sem hann væri hrifnari af bakkus en boltanum.
„Damir Muminovic hefur einnig verið í agabanni hjá liðinu. Bakkus hefur honum þótt meira spennandi en frami í fótboltanum og hefur hann ótt og títt sést í miðbæ Reykjavíkur,“ segir í greinar Tómasar en Damir var þá leikmaður HK.