Minnsta sveitarfélag landsins, Árneshreppur á Ströndum, vill sameinast öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum. Samgöngubætur þurfi hins vegar að fylgja af hálfu ríkisins.
Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti hreppsins, sem telur innan við 50 sálir, segir að innviðaráðuneytið þrýsti á um sameiningu, þó að ekki sé haft hátt um það opinberlega. Hreppurinn er tiltölulega nýbúinn að fá bréf þar sem fulltrúar eru krafnir svara um hvers vegna engar sameiningarumræður séu í gangi.
Hreppurinn hefur nú lýst sig opinn til viðræðna um sameiningar við önnur sveitarfélög. Tvö sveitarfélög, Ísafjarðarbær og Strandabyggð, hafa þegar sýnt jákvæð viðbrögð.
„Það er ekki þannig að það vilji enginn hafa okkur,“ segir Eva en að formlegar viðræðubeiðnir verði að koma frá öðrum og stærri sveitarfélögum en Árneshreppi. Hann sé of lítill til að gera það.
„Við höfum það fjárhagslega þokkalega gott og við tökum þátt í öllu því sem okkur ber að gera,“ segir Eva. „Sumt er í samlagi eða samvinnu við aðra aðila á Vestfjörðum. Það er helst að við getum ekki boðið upp á þjónustu í heimabyggð fyrir gamla fólkið okkar. Það hefur verið lenska hjá gömlu fólki úti á landi að fara til borgarinnar eða á önnur þéttbýlissvæði til að koma sér fyrir síðustu árin. En það er það eina sem hægt er að benda á okkur og segja að við séum ekki að gera almennilega.“
Stærsta málið í huga Evu eru samgöngumálin. Það er að staðið verði við núverandi samgönguáætlun og Árneshreppur fái vegbætur.
„Við getum ekki sameinast sveitarfélagi sem við höfum ekki óheftar samgöngur við,“ segir Eva og segir að hugsanlega geti sameiningarviðræður strandað á þessu efni. Það er ef ríkið stendur ekki við sitt. Nefnir hún helst vegbætur á hálsinum yfir Veiðileysu.
„Það er ábyggilega ekki til það mannsbarn á Íslandi sem hefur ekki heyrt okkur tuða yfir Veiðileysuhálsi,“ segir hún. Samkvæmt núverandi samgönguáætlun eigi að byrja á þessu verkefni á næsta ári. Hins vegar er búið að leggja fram nýja áætlun þar sem þetta verkefni frestast um 6 til 8 ár. Það sé eitthvað sem íbúar Árneshrepps geti ekki sætt sig við.