fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Pressan

Varð undirforingi í hernum þegar hann var aðeins 12 ára gamall

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 5. september 2023 22:00

Orrustan við Chickamauga 1863 þar sem John Clem hlaut fyrst frægð og frama/Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þótt John Clem væri smár í loftinu og aðeins barn að aldri vílaði hann ekki fyrir sér að skjóta ofursta í her Suðurríkjanna sem gerði lítið úr honum og krafðist þess að hann gæfist upp. Clem þótti raunar svo hugdjarfur að hann varð yngsti undirforingi í sögu bandaríska landhersins.

Í maí 1861 kallaði forseti Bandaríkjanna, Abraham Lincoln, eftir því að sjálfboðaliðar gengju til liðs við her Norðurríkjanna í þeirri borgarastyrjöld sem þá hafði brotist út í landinu.

Meðal þeirra sem svaraði kalli forsetans var hinn níu ára gamli John Clem. Honum var vísað fyrst frá en eftir að hann hafði þusað nægilega mikið var samþykkt að gera hann að óopinberum trommara 22. fótgönguliðasveitar Michiganríkis.

Trommarar gengdu margvíslegum hlutverkum í borgarastyrjöldinni. Meðal þeirra helstu var að gefa merki, með trommuslætti, sem fólu í sér skilaboð til hermanna til dæmis á meðan orrustum stóð.

Clem var hins vegar ekki lengi að láta til sín taka.

Hann hafði ekki átt auðvelt líf. Skömmu áður en hann strauk að heiman til að ganga til liðs við her Norðurríkjanna hafði móðir hans látist.

Ofurstinn sem var yfirmaður fótgönguliðasveitarinnar í Michigan sagði við hann í fyrstu að sveitin væri enginn staður fyrir börn. Ef hann væri stærri og aðeins eldri gæti hann mögulega fengið pláss en að Clem yrði því miður að vera heima og gæti ekki farið með sveitinni á vígvöllinn. Clem gaf sig hins vegar ekki og var loks gerður að trommara sveitarinnar. Þar sem staðan var óopinber voru Clem ekki greidd laun en herforingjar í sveitinni gáfu hluta af sínum launum til hans.

Ekki eini drengurinn

Clem var langt frá því eini drengurinn sem barðist í borgarastyrjöldinni í Bandaríkjunum. Opinbert aldurstakmark í bæði her Norðurríkjanna og Suðurríkjanna var 18 ár en þrátt fyrir það börðust tugir þúsunda drengja, undir þeim aldursmörkum, í styrjöldinni.

Sumir drengir sem gengu til liðs við annan hvorn stríðsaðilann tóku ekki allir beinan þátt í átökum en gegndu stöðum til að mynda trommara eða sendla en meirihluti þeirra, John Clem þar á meðal, voru hins vegar með í bardögum.

Það var síðan í orrustunni við Chickamauga, í september 1863, þar sem John Clem, þá orðinn 12 ára gamall, þótti sýna svo mikla djörfung að hann hlaut þó nokkra frægð fyrir.

Orrustan var nánar tiltekið háð í Georgíuríki og var sú næst mannskæðasta í borgarastyrjöldinni, næst á eftir orrustunni við Gettysburg í Pennsylvaníuríki sem var háð í júlí sama ár.

Í orrustunni við Chickamauga voru 389 af 455 liðsmönnum 22. fótgönguliðasveitar Michiganríkis handsamaðir, særðir eða vegnir

Clem var þó ekki einn af þessum 389. Hann varð viðskila við sveitina en var vopnaður framhlaðningi. Framhlaðningar (e. musket) voru nokkuð langar byssur en sá sem Clem var með hafði verið afsagaður svo hann réði við að halda á honum.

Clem hljóp beint á flasið á ofursta sem tilheyrði liði óvinarins, Suðurríkjanna. Ofurstinn hæddist að Clem og hann sagði hann fulllítinn til að vera í miðri orrustu en best væri að hann léti byssuna frá sér. Samkvæmt sumum heimildum var ofurstinn öllu orðljótari en þetta í garð Clem.

John Clem/Wikimedia

Hermaðurinn smái en knái lét sér ekki segjast, lyfti framhlaðningnum og skaut ofurstann til bana.

Clem þótti með þessu hafa sýnt mikið hugrekki og var hækkaður upp í tign liðþjálfa. Þar með varð hann yngsti undirforingi í sögu landhers Bandaríkjanna.

Eina ljósið

Skemmst er frá því að segja að her Norðurríkjanna tapaði orrustunni við Chickamauga og féllu 16.000 hermenn úr þeirra röðum.

Clem var handsamaður af her Suðurríkjanna, í Tennessee-ríki, nokkrum vikum síðar. Honum var haldið í þrjá daga en látinn í laus í kjölfar fangaskipta. Hann hélt til móts við þá sem eftir voru af sveit hans en á leiðinni hitti hann hershöfðingjann William S. Rosecrans. Hershöfðinginn hafði stýrt her Norðurríkjanna í orrustunni við Chickamauga en hafði verið leystur frá störfum eftir ósigurinn. Rosecrans þótti mikið til Clem koma og hikaði ekki við að segja fréttamönnum frá honum sem varð til þess að saga John Clem breiddist út um öll Norðurríkin. Saga Clem þótti vera það eina jákvæða fyrir Norðurríkin sem kom út úr orrustunni.

Í júlí 1864 var Clem hins vegar leystur undan herþjónustu en stríðmálaráðuneytið hafði þá bannað það alfarið að drengir undir 16 ára aldri gerðust hermenn.

Clem fór í skóla eins og hann var hvattur til að gera en hélt góðu sambandi við félaga sína í 22. fótgönguliðssveit Michiganríkis. Hann hafði þó ekki alfarið sagt skilið við herinn.

Þegar hann var orðinn 18 ára, árið 1870, sóttist hann eftir því að verða nemandi við West Point herskólann en forseti Bandaríkjanna, Ulysses S. Grant, veitti honum meðmæli. Clem féll hins vegar á inntökuprófinu en forsetinn skipaði hann þá liðsforingja í landhernum.

John Clem gengdi herþjónustu allt til ársins 1915 og barðist meðal annars í stríði Bandaríkjanna og Spánar árið 1898.

Þegar hann lét af störfum í bandaríska hernum var hann síðasti liðsmaður hersins sem hafði barist í borgarastyrjöldinni. Sumir þeirra sem deildu þessari reynslu með Clem gengu hins vegar aftur til liðs við herinn þegar Bandaríkin hófu þátttöku í fyrri heimstyrjöldinni, árið 1917.

Clem lést 1937. Hann hét upphaflega John Joseph Clem en lét breyta nafni sínu í John Lincoln Clem til heiðurs Abraham Lincoln. Undir því nafni hvílir hann í þjóðargrafreit Bandaríkjanna í Arlington í Virginíuríki.

Það var Allthatsinteresting sem greindi frá.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Bandaríkjamenn loka sendiráði sínu í Úkraínu vegna gruns um yfirvofandi árás

Bandaríkjamenn loka sendiráði sínu í Úkraínu vegna gruns um yfirvofandi árás
Pressan
Fyrir 2 dögum

„Þetta hafa verið hrikalega löng tíu ár“

„Þetta hafa verið hrikalega löng tíu ár“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum
Pressan
Fyrir 4 dögum

David Attenborough miður sín þegar hann frétti að gervigreindin stal röddinni hans

David Attenborough miður sín þegar hann frétti að gervigreindin stal röddinni hans
Pressan
Fyrir 4 dögum

Stórfurðulegt tryggingasvindl – Sjáðu myndbandið

Stórfurðulegt tryggingasvindl – Sjáðu myndbandið