58,1 prósent segja að fjöldi ferðamanna hafi verið of mikill í sumar. 40,1 prósent segja fjöldann hæfilegan en aðeins 1,8 prósent of lítinn. 21 prósent segja fjöldann allt of mikinn en 37,1 prósent heldur of mikinn.
Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir Túrista.is og birt var í morgun.
Það er einkum eldra fólk sem telur fjölda ferðamanna of mikinn. 75 prósent 65 ára og eldri telur fjöldann hafa verið of mikinn. Andstaðan er sérstaklega mikil á meðal eldri kvenna.
Andstaðan fer svo minnkandi eftir aldurshópum. Aðeins 40 prósent fólks á aldrinum 18 til 24 ára telur ferðamenn of marga.
Þó að ferðamanna átroðningurinn sé mismikill eftir svæðum mælist lítill munur á viðhorfi fólks eftir því hvar á landinu það býr.
Könnunin var gerð dagana 18. til 28. ágúst. Úrtakið var 1.697 og 849 svöruðu könnuninni.