„Hversu þægilegt er að geta verslað í Nettó og gripið tæki með?“ segir Gerður Arinbjarnardóttir eigandi Blush. Heilsu- og lífsstílsdagar eru nú hafnir í verslunum Nettó um allt land og í þetta sinn er verslanakeðjan í samstarfi við Blush. Hægt verður að kaupa kynlífstæki, sem hönnuð eru af Gerði sjálfri undir nafninu Reset, í öllum verslunum. „Þetta er tilraunaverkefni hjá Nettó og Blush, að vera með Reset í öllum verslunum Nettó, bæta aðgengi og þjóna eftirspurn,“ segir Gerður í nýútkomnu heilsublaði Nettó.
Segir Gerður að mikil vitundarvakning hafi átt sér stað varðandi kynlífstæki og kaup á þeim undanfarin ár og það hjá öllum aldurshópum. „Nú kaupa bara allir kynlífstæki sem vilja.“
Í Nettó verða fimm tæki til sölu, fyrir píku til að örva sníp, g-blett og leggöng og eitt endaþarmstæki.
Mælir með að skipuleggja kynlífið
Gerður segir að í nútímaþjóðfélagi með mikilli vinnu og skyldum geti reynst erfitt að finna tíma og orku fyrir kynlíf. Mælir hún með að skipuleggja kynlífið. „Það hljómar kannski óspennandi en það er rosa eðlilegt að upptekið fólk þurfi að skipuleggja sig. Þegar við vitum að í dag ætlum við að stunda kynlíf erum við allan daginn að undirbúa okkur, fara í kósí sturtu og svona og daðra allan daginn. Þetta verður lengri forleikur sem gerir kvöldið ennþá skemmtilegra.“
Viðtalið við Gerði má lesa í heild sinni í nýútkomnu heilsublaði Nettó.