Tómas Ellert Tómasson, fyrrverandi bæjarfulltrúi Miðflokksins í Árborg, fullyrðir að hann hafi fengið boð um fjárhagslegan stuðning við Miðflokkinn í næstu sveitastjórnarkosningum í skiptum fyrir pólitíska fyrirgreiðslu árið 2020. Þetta kemur fram í umfjöllun Heimildarinnar nú í morgun.
Fyrirgreiðslan var sú að Miðflokkurinn, sem þá var í meirihluta bæjarstjórnar, myndi vinna að því að sveitarfélagið Árborg myndi falla frá kaupum á húsi Landsbankans á Selfossi. Í greininni fullyrðir Tómas að fjárfestirinn Leó Árnason, annar af eigendum fasteignafélagsins Sigtúns sem stendur að uppbyggingu nýja miðbæjarins á Selfossi, hafi hitt sig á fundi í nóvember 2020 og lagt fram fjárhagslegt tilboð til hans gegn áðurnefndu skilyrði. Hinn eigandi félagsins er Kristján Vilhelmsson, stofnandi og útgerðarstjóri Samherja
Landsbankahúsið var þá í söluferli en ljóst var að sveitarfélagið Árborg átti hæsta tilboð í húsið en Sigtún hafði einnig augastað á húsinu en átti næsthæsta tilboðið.
„Leó bað mig að hitta sig á fundi. Í upphafi fundarins kom fram að erindið var Landsbankahúsið. Það kemur í ljós að hann var að gera mér tilboð ef ég myndi vinna að því að sveitarfélagið myndi falla frá kaupunum. Það fer ekkert á milli mála hvað var að gerast á þessum fundi: Leó var að reyna að kaupa sér stuðning kjörins fulltrúa,“ segir Tómas í samtali við Heimildina. Heldur Tómas því fram að það sem Leó vissi ekki þá var að sveitarfélagið hafði þegar fallið frá því að kaupa húsið og fór það svo að Sigtún eignaðist fasteignina fyrir 325 milljónir króna.
Með umfjöllun Heimildarinnar birtist mynd sem Tómas tók af fundi þeirra Leós en þar má sjá fjárfestinn sitja við tölvu og á stórum skjá má sjá minnispunkta þar sem meðal annars segir að Árborg falli frá ónefndum kaupum og, að því er virðist, tilboð um að kosningabarátta verði skipulögð.
Segist Tómas, sem á ekki lengur sæti í bæjarstjórn Árborgar, stíga fram nú til að sýna hvernig kaupin gerist á eyrinni.
Í umfjöllun Heimildarinnar neitar Leó alfarið því að hafa freistað þess að múta stjórnmálafólki. Hann segist ekki muna eftir því hvort hann hafi skrifað textann sem sést á áðurnefndri mynd sjálfur eða hvort að Tómas hafi hreinlega gert það. Um sé að ræða punkta sem að tengist kaupunum á Landsbankahúsinu ekki enda hafi honum verið fullkunnugt um að sveitarfélagið ætlaði ekki að kaupa fasteignina.
Segir hann Tómas hafa sjálfan leitast eftir stuðningi í næstu kosningabaráttu, enda mikið í mun um að halda sæti sínu í sveitarstjórn. „Það er bara verið að skrifa niður punkta: Heyrðu, viltu aðstoða mig í kosningum? […] Ég get alveg lofað þér því að ég hef ekki gert neinum tilboð í þessa veru,“ er haft eftir Leó í umfjölluninni.
Hér má lesa umfjöllun Heimildarinnar í heild sinni.