Þann 31. ágúst var fyrirtækið Furuverk afskrifað, en skiptalok voru í félaginu þann 28. ágúst, það var úrskurðað gjaldþrota 21. september 2022 en var stofnað 22. júní 2021. Tilkynning birtist í Lögbirtingablaðinu í dag um skiptalokin.
Engar eignir fundust í búinu en lýstar kröfur voru 80.280.479 kr.
Skráðir eigendur eru Arturs Cikuls og Adamka Przemyslaw. Sá síðarnefndi, en hann er fæddur árið 1993 og er frá Póllandi, var mikið í fréttum DV fyrr á árinu vegna sérstakrar og skrautlegrar framgöngu sinnar, meðal annars í nafni Furuverks.
Þann 14. febrúar síðastliðinn ræddi DV við nokkrar pólskar konur sem höfðu verið hér á landi í um mánaðartíma eftir að hafa ráðið sig til starfa hjá hreingerningarfyrirtæki. Konurnar höfðu ekki fengið greidd laun og ekki hafði verið staðið í skilum með greiðslu fyrir gistingu þeirra á gistiheimili. Maðurinn sem réði þær til starfa var Adamka Przemyslaw og kom jafnframt fram að hann væri eftirlýstur í Póllandi fyrir fjársvik.
Konurnar lýstu því fyrir DV að þær hafi svarað atvinnuauglýsingu á netinu og ráðið sig til starfa hjá fyrirtæki sem bar heitið „Cleanhomes ehf.“ Það fyrirtæki er raunar ekki til en einhvers konar deild undir þessu heiti var starfrækt undir fyrirtækinu PR Hús. Konunum var sagt að starf þeirra myndi felast í þrifum á Hótel Vogum. Einnig var þeim sagt að þær ættu að sinna þrifum í verslunum Krónunnar. Hvorugt reyndist rétt og Krónan hafði aldrei heyrt um þessa starfsemi getið.
Þegar til átti að taka voru þessi verkefni ekki fyrir hendi og var konunum tjáð að ekki væri búið að landa samningum við þessa verkkaupa eins og til hefði staðið. Konurnar voru engu að síður komnar í bindandi launasamband við PR Hús og voru þær látnar þrífa og mála skrifstofuhúsnæði fyrirtækisins. Þær sögðust hins vegar hafa að mestu leyti verið verkefnalausar.
Þær voru í raun líka húsnæðislausar. Þeim var lofað samastað en var síðan tjáð að íbúðir sem þær ættu að búa í væru ekki tilbúnar og voru þær vistaðar á hóteli. Gisting hafði hins vegar ekki verið greidd fyrir konurnar nema að litlu leyti. Þær voru eina nótt á einu hóteli í Reykjavík en þurftu að greiða fyrir þá gistingu með þrifum og síðan hafa sig á brott. Þær höfðu að mestu haldið til á öðru hóteli í Reykjavík en þar hafði eigandanum tekist með eftirgangsmunum að innheimta um 35% af gistikostnaðinum. Er DV ræddi við konurnar gistu þær á staðnum upp á náð eigandans.
Konurnar sögðust engin laun hafa fengið greidd. Þeim hafði hvað eftir annað verið tjáð að launin væru á leiðinni, um væri að ræða einhvern tæknilegan vanda varðandi samskipti við banka.
Síðar fengust fréttir af því að konurnar hefðu ráðið sig í vinnu annars staðar og húsnæðisvandi þeirra leystist smám saman.
Í framhaldinu ræddi DV við fjölmarga aðila sem sökuðu Adamka um vanefndir og svik. Ungversk kona, búsett hérlendis, segist hafa verið illa svikin í viðskiptum við Adamka. Hún segist hafa, ásamt fleira fólki, fallið í þá gryfju að borga Adamka fyrirfram efniskostnað vegna verkefna sem hann átti að vinna fyrir hana en efnið hafi ekki skilað sér. Það var alltaf á leiðinni timbur úr Húsasmiðjunni eða Bauhaus eða frá Póllandi og einu sinni sendi Adamka konunni meðfylgjandi mynd sem átti að sýna timbur sem hann sagði vera á leiðinni en skilaði sér síðan aldrei.
„Einu sinni sagði hann okkur að hann væri á leiðinni að kaupa efni og við þyrftum að senda honum peninga, sem við gerðum,“ sagði konan ennfremur. „Hann var stöðugt að senda okkur skilaboð um að hann væri að fara að ljúka verkinu en hann gerði það aldrei.“
Konan skrifaði um þessi vinnubrögð Adamka á Facebook-síðu Furuverks og þá sendi Adamka henni harðar ásakanir í skilaboðum og sakaði hana um að eyðileggja líf sitt. Hún segir ennfremur: „Hann var alltaf að segja okkur að hafa samband við lögfræðinginn sinn og leysa málin en það tókst aldrei að koma á neinum fundum með lögfræðingnum.“
Konan undraðist að eftirlýstur maður gæti rekið fyrirtæki á Íslandi. „Í mínu landi þarftu að uppfylla ákveðin skilyrði til að geta átt eða rekið fyrirtæki. Sá sem hefur ekki hreint siðferðisvottorð eða hefur gerst brotlegur við skattalög, eða er undir 18 ára aldri, getur ekki fengið að reka fyrirtæki. Svo er það bara líka mín skoðun að þeir sem koma hingað til lands og eru erlendir ríkisborgarar eigi að sýna fram á hreint sakavottorð áður en þeir fara að starfrækja fyrirtæki á Íslandi.“
Samkvæmt upplýsingum Ríkisskattstjóra er Adamka enn búsettur á Íslandi. En helsta fyrirtæki hans, Furuverk, heyrir nú sögunni til.