DV hefur undir höndum bréf sem Íslandsbanki hefur sent á einn viðskiptavin sinn þar sem honum er tilkynnt að bankinn hyggist segja upp öllum viðskiptum við hann og er honum skipað að eyðileggja alla reikninga sína og loka greiðslu- og kreditkortum sínum. Maðurinn er starfandi iðnaðarmaður og hefur tvisvar gerst brotlegur við lög.
Bréfið var póstsent 29. ágúst. Þar kemur fram að ákvörðunin tengist lögum frá 2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. „Bankanum ber einnig, skv. 5. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018, að framkvæma áhættumat á starfsemi sinni, samningssamböndum og einstökum viðskiptum viðskiptamanna sinna. Í því felst m.a. að bankinn meti áhættu af samningssambandi við viðskiptamann m.t.t. orðspors viðkomandi viðskiptamanns, sbr. a. lið 12. mgr. 5. gr. laganna,“ segir ennfremur í bréfinu.
Maðurinn hefur tvisvar sinnum verið sakfelldur fyrir brot gegn skattalögum, árið 2018 og 2020. Samkvæmt samtali hans við DV eru báðir dómarnir að fullu afplánaðir. En á grundvelli þeirra hefur Íslandsbanki ákveðið að rifta öllum viðskiptum við manninn. Í bréfinu segir ennfremur:
„Að lokinni skoðun á viðskiptasambandinu er niðurstaða bankans sú að viðskipti við þig teljist vera áhættusöm samkvæmt áhættumati bankans og falla utan áhættuvilja bankans með hliðsjón af lögum nr. 140/2018.“
Í bréfi Íslandsbanka til mannsins segir að traust verði að ríkja milli banka og aðila í viðskiptum. Slíku trausti sé ekki til að dreifa af hálfu bankans í garð mannsins. Bankinn hafi því ekki aðra kosti en að segja upp öllum bankaviðskiptum mannsins frá og með dagsetningu bréfsins.
Manninum þykja þetta kaldar kveðjur og spyr hvort það sé markmið banka að ýta fólki út í svört viðskipti. „Þetta minkar ekki líkur á peningaþvætti, þetta eykur líkur á peningaþvætti,“ segir maðurinn í samtali við DV.
„Í þessu málið er Íslandsbanki að taka sér refsivald yfir aðilum og hvetja til svartar atvinnustarfsemi,“ segir maðurinn ennfremur en hann er mjög sleginn yfir þessari sendingu frá Íslandsbanka. Maðurinn segist hafa lúslesið lög nr. 140 og segir túlkun bankans á þeim eins og hún birtist í bréfinu til hans ekki standast. „Rök þeirra eru þvæla að mínu mati.“
DV sendi fyrirspurn á samskiptasvið Íslandsbanka, vísaði til bréfsins sem maðurinn fékk og spurði hvort þurfi hreint sakavottorð til að eiga viðskipti við bankann. Einnig var spurt hvort bankinn teldi ekki hættu á að aðgerðir af þessu tagi ýti undir svört viðskipti. Beðið var um regluramma varðandi uppsögn á viðskiptasambandi á þessum forsendum.
Í svari bankans segir að hreint sakavottorð sé ekki skilyrði fyrir viðskiptum við bankann en ákvæði umræddra laga leggi þær skyldur á bankann að kanna orðspor viðskiptavina og bregðast við ef það er laskað. Svarið er orðrétt eftirfarandi:
„Það eru ekki skilyrði fyrir bankaviðskiptum að vera með hreint sakavottorð. Í lögum nr. 140/2018 er að finna eftirfarandi ákvæði sem leggur þær skyldur á bankann að kanna orðspor viðskiptavina og bregðast við því ef það er laskað. Eftirfarandi ákvæði er að finna í b. lið 3. mgr. 5. gr. laganna og hljómar svona:
Við mat á því hvernig samningssambönd og einstök viðskipti skulu áhættuflokkuð skal horft til allra viðeigandi áhættuþátta sem geta, einir sér eða samanlagt, aukið eða dregið úr áhættu vegna peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. Horfa skal til þeirrar heildaráhættu sem tengist samningssambandi og einstökum viðskiptum, m.a. til:
a. starfsemi, orðspors og stjórnmálalegra tengsla viðskiptamanns og raunverulegs eiganda,
b. ríkja eða ríkjasvæða sem tengjast viðskiptasambandinu,
c. áhættuþátta sem tengjast þeirri vöru, þjónustu eða færslum sem sóst er eftir,
d. dreifileiða sem notaðar eru,
e. þess hvort viðskiptamaður noti milligönguaðila til að koma fram fyrir sína hönd,
f. þess hvort viðskiptamaður sé lögaðili með flókið eignarhald eða stjórnskipulag,
g. þess hvort viðskiptamaður sé fjárvörslusjóður eða sambærilegur aðili, og
h. þess hvort viðskiptamaður stundi aðallega reiðufjárviðskipti.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu tryggja að áhættumat á samningssamböndum endurspegli fyrirliggjandi áhættu á hverjum tíma og sé í samræmi við þau viðskipti sem viðskiptamaður stundar.]
Bankinn hefur því innleitt verklag sem felst í því að bregðast við ef viðskiptavinur er með orðspor sem bankinn metur leiða til aukinnar áhættu m.t.t. peningaþvættisvarna bankans, það getur t.a.m. átt við ef viðkomandi hefur hlotið refsidóm fyrir fjármunabrot og ef skoðun á viðskiptasambandi hans leiðir til þess að ástæða sé að bregðast við enda eina markmið bankans að standa vel í að uppfylla þær kröfur sem á hann eru lagðar en jafnframt reyna að ganga ekki of langt. Skortur á leiðbeiningum frá Seðlabanka Íslands – FME gerir það að verkum að bankinn verður að leggja mat á hvernig hann getur best uppfyllt þetta ákvæði til hlítar.
Bankanum ber einnig skylda til að forðast grunsamleg viðskipti sbr. 22. gr.
Íslandsbanki vill einnig koma á framfæri að við gerðar umsagnar við ofangreinda lagabreytingu, sem sett var fram í nafni Samtaka fjármálafyrirtækja og sjá má hér: 152-3471.pdf (althingi.is) þar sem Samtökin koma ákveðnum andmælum á framfæri náði ekki fram að ganga á þinginu. Þar er enn fremur farið yfir það að samtökin telji um séríslenskt ákvæði að ræða og verið sé að ganga lengra í lagasetningu en þörf krefur og engar leiðbeiningar um hvernig eigi að fullnægja þessu lagaákvæði. Að þessu sögðu mætti benda á ráðuneytið og Fjármálaeftirlitið sem geta útskýrt ástæðuna fyrir að ákvæðið er sett inn í lögin.“
DV hefur heimildir fyrir því að Íslandsbanki hafi rift viðskiptum við fleiri aðila sem hlotið hafa sakadóma vegna fjármálamisferlis. Dómar fyrir skattsvik og peningaþvætti virðast vera meðal þeirra brota sem leitt geta til rofs á viðskiptasambandi. Þær spurningar eru áleitnar hvort allir bankar túlki lög nr. 140 á sama hátt og hvort fólk geti lent í því að geta ekki átt bankaviðskipti hér á landi.
„Hvernig færu þau að án greiðslukortanna sinna,“ segir viðmælandi DV, sem fékk umrætt bréf frá Íslandsbanka. Hann bendir á að bankinn sjálfur hafi orðið gjaldþrota á sínum tíma og hafi ekki hreint orðspor.