Par sem ákvað að gera sér góðan dag og fara út að borða á veitingastað var furðu lostið þegar það fékk reikninginn fyrir kvöldinu. Á reikningum sést að veitingastaðurinn rukkar parið um 15 dala gjald sem útskýrt er með línunni: „You´re an asshole„ eða bara á ástkæra ylhýra, „Þið eruð fávitar.“
Parið deildi mynd af reikningnum á Reddit, þar sem hann vakti nokkra athygli. Maðurinn var þó fljótur að útskýra að hvorki parið né þjóninn eða veitingastaðurinn væru jafnmiklir dónar og reikningurinn gæfi til kynna.
„Ég og konan mín fórum á veitingastað í tilefni af afmæli hennar og fengum okkur bæði kokteila. Ég gleymdi strax nafninu á þeim en þegar reikningurinn kom þá mundi ég að nafnið var „You´re an asshole, Mr. Burton.“
Kokteillinn inniheldur gin, púrtvín, lime-safa, hunang, ferskjulíkjör, eggjahvítu og púðursykur.
Drykkurinn er þó ekki eina furðulega heitið á reikningnum því þar er einnig rukkað fyrir chickentit eða kjúklingabrjóst í stað bringu upp á 18 dali. Sá réttur samanstendur af kjúklingabringu, salati, Havarti osti, tómötum, basil og sinnepsaioli í ciabatta bollu.
Netverjum fannst nafn á réttum staðarins bráðfyndið og sumir fóru í að skoða matseðil staðarins, sem er í Oregon í Bandaríkjunum. „Sesarsalatið heitir „Et Tu Brute? (Og þú Brútus?), ég dýrka það,“ skrifar einn þeirra.