Öll spjót hafa staðið á hinum umdeilda forseta spænska knattspyrnusambandsins, Luis Rubiales, síðan að hann tók upp á því að kyssa Jenny Hermoso. leikmann spænska landsliðsins, beint á munninn án samþykkis þegar Hermoso tók við gullverðlaununum sínum á HM kvenna í Ástralíu.
Athæfið og eftirmálar þess hafa vakið gríðarlega athygli og berst Rubiales nú fyrir lífi sínu sem forseti knattspyrnusambandsins en mikil pressa er á honum um að segja af sér.
Heromoso steig fram skömmu eftir athæfið og sagði að brotið hefði verið á henni og kossinn ekki verið með samþykki hennar. Allir spænsku heimsmeistararnir standa með henni í baráttunni og hafa sagst ekki ætla að spila aftur fyrir landsliðið ef Rubiales stígur ekki til hliðar. Fór svo að FIFA úrskurðaði forsetann í 90 daga bann fyrir athæfið, sem margir töldu banabita hans í embættinu, en Rubiales stóð áfram keikur og lét ekki undan.
Þá hefur móðir Rubiales sömuleiðis vakið heimsathygli fyrir uppátæki sitt en hún læsti sig inni í kirkju í Malaga vegna meintra nornaveiða gagnvart syni sínum og sat þar í hungurverkfalli í þrjá sólarhringa. Að endingu var hún flutt á spítala eftir að hafa fallið í yfirlið en hún hefur sagst vera tilbúin að deyja í baráttunni fyrir son sinn.
Ýmislegt hefur gengið á síðustu daga en til að mynda var í vikunni birt myndband af Hermoso í liðsrútu spænska liðsins þar sem hún virtist hlægja af kossinum og slá á létta strengi. Var myndbandið vatn á myllu þeirra sem standa með forsetanum en sá hópur hefur meðal annars haldið því fram að Rubiales sé fórnarlamb öfgafemínista sem séu að reyna að klekkja á honum. Hafa stuðningsmenn Rubiales haldið því fram að Hermoso hafi samþykkt kossinn og að leikmaðurinn komi hreint fram og viðurkenni það. Sjálfur hefur Rubiales sent myndbandið á FIFA til þess að verja málstað sinn en talsmenn hans hafa einnig gefið það í skyn að önnur gögn séu til, þar á meðal samtöl milli Rubiales og Heromoso.
🔴 Bombazo de Alvise 🔴
Celebración después del mundial donde se ve a una sonriente Jenni Hermoso de cachondeo total con las demás jugadoras por lo del pico de Rubiales
¿Y ahora que pasa con el feminazismo político, los medios palmeros ejecutores y las manifestaciones de… pic.twitter.com/hiuyKcFP4e
— Doctor Tricornio (@Doct_Tricornio) August 29, 2023
En það virðist ekki ríkja einhugur innan nánustu fjölskyldu Rubiales þó móðir hans standi með honum fram í rauðan dauðann. Í gær birtist eldfimt viðtal við náfrænda Rubiales, Juan Rubiales Lopez, í spænska blaðinu El Confidencial. Sagði Lopez þar í viðtalinu að frændi sinn þyrfti að fara í endurmenntun varðandi framkomu gagnvart konum og sagði að hann væri „heltekinn af völdum, munaði, peningum og konum“.
Sagði hann flesta í fjölskyldu sinni styðja málstað Jenny Hermoso og að heiður Rubiales fjölskyldunnar væri undir. Kemur fram í viðtalinu að illdeilur logi innan fjölskyldunnar og að foreldrar Rubiales hafi lokað á alla þá sem að ekki styðja son þeirra.