Þrír stórir póstar í karlalandsliðinu, Aron Einar Gunnarsson, Arnór Sigurðsson og Birkir Bjarnason voru ekki valdir í hóp Age Hareide fyrir komandi leiki gegn Lúxemborg og Bosníu-Hersegóvínu í undankeppni EM 2024. Hann var spurður út í fjarveru þeirra á blaðamannafundi í dag.
Aron og Arnór missa af leikjunum vegna meiðsla.
„Aron er meiddur á ökkla og Arnór var meiddur þegar hann yfirgaf landsliðið í júní. Hann hefur tekið þau meiðsli með sér inn í tímabilið. Ég hef talað við stjóra Blackburn, Jon Dahl Tomasson og hann er mjög leiður yfir því að vera án hans í byrjun tímabils,“ segir Hareide.
Birkir gekk í raðir Brescia á Ítalíu á dögunum frá Viking en hann hafði lítið spilað með norska liðinu.
„Birkir hefur ekki verið að spila reglulega svo ég hringdi í hann og sagði honum að ég myndi velja leikmenn sem spila reglulega og að ég þyrfti líka að sjá ný andlit. Þetta er mikilvægt til að stækka möguleika okkar.“