Skapofsakast konu í anddyri Bus Hostel í Skógarhlíð þann 5. desember árið 2021 hefur dregið dilk á eftir sér því konan hefur verið ákærð fyrir brot gegn valdstjórninni.
Atvikið átti sér stað á aðfaranótt sunnudags. Konan, sem er á fertugsaldri, gerði sér lítið fyrir og sparkaði vinstra hné í bak lögreglumanns sem var við skyldustörf, með þeim afleiðingum að lögreglumaðurinn hlaut mar í baki. Frá þessu segir í ákæru héraðssaksóknara.
Einnig segir að hún hafi hótaði lögreglumanninum lífláti í anddyri Bus Hostel og í lögreglubíl á leið á lögreglustöðina við Hverfisgötu.
Héraðssaksóknari krefst þess að konan verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrirtaka verður í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 5. september næstkomandi.