Mikið fjaðrafok var í kringum leik Víkings og Breiðabliks sem fyrrnefnda liðið vann 5-3 um helgina. Blikar vildu fá leiknum frestað í ljósi þess að liðið er í miðju einvígi um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Kópavogsliðið vann fyrri leikinn gegn Struga í Norður-Makedóníu á fimmtudag 0-1 og mætir þeim hér heima í seinni leiknum næstkomandi fimmtudag.
Víkingur var ekki til í að spila leikinn í landsleikjahléi og hendur KSÍ voru bundnar þar sem ekki var hægt að finna nýjan leikdag.
Blikar voru klárlega bálreiðir yfir því að leiknum hafi ekki verið frestað. Liðið mætti ekki í Fossvoginn fyrr en tæpum hálftíma fyrir leik og leikskýrslan barst seint. Þá notaði liðið ekki klefaaðstöðu í Víkinni heldur fór beint út á völl.
„Fyrir mér lauk þessum leik klukkan níu á sunnudaginn, þegar við löbbuðum út af vellinum. Ég hef svosem ekki verið að tala um hann eða hugsa um hann mikið eftir það,“ sagði Óskar um málið við 433.is í dag.
Á dögunum fóru af stað sögur um að Blikar hafi verið ósáttir við klefaastöðu í Víkinni í fyrra og hafi því ákveðið að nýta sér hana ekki í þetta sinn.
„Það er eitthvað til í því. Það er of langt mál að fara í. Ég get alveg sagt það að við vorum löngu búnir að ákveða að gera þetta svona. Það skipti engu máli í hvaða stöðu við værum eða á milli hvaða leikja þetta væri. Það er bara val. Á meðan KSÍ skildar okkur ekki til að vera á staðnum einum og hálfum tíma fyrir leik eins og UEFA gerir í Evrópukeppnum hafa liðin þetta val. Ef Valur eða Víkingur vilja mæta hingað á Kópavogsvöll 20 mínútum fyrir leik þá er það þeirra val.“
Óskar bendir á að Blikar hafi mætt til leiks og gert allt sem krafist er af þeim á leikdegi.
„Gagnrýnin sem er á þann veg að við höfum orðið okkur til skammar eða gert lítið úr leiknum, mér finnst hún ekki alveg eiga rétt á sér því við stóðum við allar okkar skuldbindingar og leikurinn byrjaði á réttum tíma.“
Viðtalið í heild er í spilaranum, en þar er einnig farið yfir leikinn gegn Struga og fleira.