Árvökull starfsmaður verslunar á höfuðborgarsvæðinu taldi að fingralangur viðskiptavinur hafði stolið tveimur Mentos-pökkum. Starfsmaðurinn hringdi þegar á lögreglu og rauk til og hafði hendur í hári þjófsins. Þá kom í ljós að vinur umrædds viðskiptavinar hafði þegar greitt fyrir pakkana. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu nú í morgun en ekki kemur fram hvernig viðskiptavinurinn tók uppátækinu.
Þá hringdi illa áttaður einstaklingur í lögregluna því að viðkomandi fann ekki bíl sinn við Smáralind. Áður en lögreglan hafði haft ráðrúm til að aðstoða viðkomandi hringdi viðkomandi aftur og tilkynnti að bíllinn væri fundinn.
Því miður var nokkuð um að ökumenn væru teknir vegna gruns um að þeir væru undir áhrifum við aksturinn. Þá komu upp allnokkur tilvik vegna ölvaðra einstaklinga. Þannig hafði lögreglan afskipti af meðvitundarlausum manni í runna, sem reyndist afar ölvaður sem og tveimur sem sváfu ölvunarsvefni á gangstétt og í ísbúð.