Alan Haworth, lávarður og fyrrverandi ritari breska Verkamannaflokksins, lést á Landspítalanum í gær morgun. Breski miðillinn Independent greindi fyrst frá. Haworth var í skemmtiferðasiglingu um Grænland og Ísland með eiginkonu sinni, Maggie Rae, þegar hann veiktist illa af lungnabólgu. Hann var í kjölfarið fluttur til aðhlynningar á Landspítalanum með sjúkraflugi en þar lést hann svo úr hjartaáfalli.
Haworth var ritari verkamannaflokksins árin 1992-2004 og varð síðar fulltrúi í lávarðadeild breska þingsins.
„Ég er augljóslega miður mín en ég get ekki hrósað íslenska heilbrigðiskerfinu og læknunum og hjúkrunarfræðingunum sem önnuðust hann nægilega. Ég á aldrei eftir að geta fullþakkað þeim fyrir fagmennsku þeirra og hlýju,“ er haft eftir Maggie Rae í tilkynningu breska Verkamannaflokksins um andlátið.