fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Nýorðin ófrísk þegar eiginmaðurinn greindist með krabbamein – Síðustu orð hans voru „Ég elska þig“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 28. ágúst 2023 20:00

Mynd: People

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðeins nokkrum vikum eftir að Lorelai Mentzer komst að því að hún væri ófrísk greindist Patrick eiginmaður hennar með ristilkrabbamein, aðeins 35 ára gamall. Þegar sonur þeirra fæddist í ágúst 2021 héldu hjónin að Patrick væri orðinn krabbameinslaus, en meinið kom aftur og dreifðist. Hjónin voru staðráðin í að að reyna að njóta gleði hvern einasta dag sem þau áttu eftir saman.

„Mikilvægasti hlutinn af sögu okkar saman var bara að gera það besta úr henni og búa samt til allar þessar yndislegu minningar, jafnvel á síðustu dögum Patrick,“ sagði Lorelai í viðtali við People. Patrick lést 11. maí síðastliðinn, 37 ára að aldri.

„Ég vissi í hjarta mínu að ég myndi missa hann á þessu ári. Ég er að reyna að vera þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman.“

Kynntust á Tinder

Parið kynntist á Tinder fyrir um tíu árum síðan, stuttu eftir að Lorelai flutti frá Kentucky til foreldra sinna í Virginíu. Parið trúlofaði sig jólin 2016 og giftu sig í september árið 2017.

Árið 2020 í lok nóvember komst Lorelai að því að hún væri ófrísk. Í janúar vaknaði Patrick um miðja nótt með verulegar blæðingar frá meltingarvegi. Þegar þau komu fyrst á bráðamóttökuna var þeim sagt að þetta væri líklega bara gyllinæð, en við ristilspeglun fannst lítið æxli.

„Okkur var verulega brugðið, Patrick var alltaf mjög heilsuhraustur og kenndi sér ekki meins.“

Í ágúst 2021, rúmum mánuði eftir að Patrick lauk lyfjameðferð, fæddist sonur þeirra Jamie, þá var Patrick talinn krabbameinslaus og gátu hjónin notið tímans saman með ungum syninum. Í desember þegar Patrick fór í hefðbundna skönnun, komu meinvörp í ljós á lifur hans.

„Við eyddum föstudeginum í algjöru áfalli og gúggluðum okkur til, á laugardeginum vorum við grátandi og farin að ræða hvernig jarðarför Patrick ætti að vera,“ segir Lorelei. Patrick hóf sína aðra meðferð. Annað áfall reið síðan yfir þegar foreldrar Lorelei slösuðust í mótorhjólaslysi. Þau lifðu af, en faðir hennar missti minnið um tíma og hélt að árið væri 1993. Faðir hennar endurheimti þó minnið, og ákváðu þau hjónin að endurnýja hjúskaparheit sín og tók Patrick að sér að stjórna athöfninni hjá tengdaforeldrum sínum.

Viku fyrir athöfnina fékk Patrick slæmar niðurstöður, en hann og Lorelei ákváðu að gera samt gott úr fríinu með stórfjölskyldunni. Í mars á þessu ári var meginhluti lifrar Patricks full af æxlum og Lorelai bókaði fjölskyldufrí fullviss um það yrði þeirra síðasta.

Næsta mánuð lá Patrick á sjúkrahúsi. Á dögum þegar honum leið vel fór hún með hann út til að sitja á veröndinni með vinum. „Ég þakkaði honum fyrir líf okkar saman. Ég sagði honum að hann hefði staðið sig vel og verið hugrakkur og að mikið hefði verið á hann lagt.“

Lorelai setti upp myndavél í svefnherbergi þeirra og tók upp myndbönd af henni að sinna syni þeirra og innrammaði myndir af fjölskyldunni, allt til að sýna Patrick og umvefja hann fallegum augnablikum. „Mér fannst eins og það væri mitt starf að ganga úr skugga um að hann vissi að hann hafði lifað fallegu lífi og hann bjó til fallegt líf fyrir mig og son okkar.“

Þriðjudaginn 11. maí spurði Lorelai eiginmann sinn hvort hann vildi hitta son þeirra, svarið var auðvitað já. Patrick hlustaði á soninn hlæja og brosti áður en hann sagði: „Ég elska þig,“ og féll í dá. Hann lést um kvöldið.

Lorelei talar á hverjum degi við son sinn um föður hans. 

Mynd: GoFundMe

Innan við sólarhring eftir að Patrick lést deildi Lorelai myndbandi á TikTok af hjónunum þar sem þau tala saman og kyssast. Myndbandið hefur síðan fengið nær 62 milljón áhorfa. 

@lorelaimentzer Cancer ripped you away from me too soon. Fly high my sweet angel of a man. I love you eternally. #grief #griefjourney #widow #fuckcancer #coloncancerawareness #hospice #cancer #dying ♬ Sad Emotional Piano – DS Productions

Lorelai stofnaði jafnframt GoFundMe-síðu til að fjármagna stofnun í nafni eiginmanns síns. Hún vonast til að geta styrkt aðrar fjölskyldur, þar sem fjölskyldumeðlimur glímir við krabbamein, fjárhagslega. Önnur söfnunarsíða var sett á fót fyrir son þeirra.

„Ég elska að fólk veit núna sögu Patricks og hvað hann gerði fyrir okkur. Tilgangur minn núna er að sjá til þess að hans sé minnst á þann hátt sem ég man eftir honum. Ég vil að allur heimurinn viti hversu mikið Patrick elskaði okkur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt