Mikið fjaðrafok var í kringum leik Víkings og Breiðabliks sem fyrrnefnda liðið vann 5-3 í gær. Blikar vildu fá leiknum frestað í ljósi þess að liðið er í miðju einvígi um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Kópavogsliðið vann fyrri leikinn gegn Struga í Norður-Makedóníu á fimmtudag 0-1 og mætir þeim hér heima í seinni leiknum næstkomandi fimmtudag.
Víkingur var ekki til í að spila leikinn í landsleikjahléi og hendur KSÍ voru bundnar þar sem ekki var hægt að finna nýjan leikdag.
Blikar eru klárlega bálreiðir yfir því að leiknum hafi ekki verið frestað. Liðið mætti ekki í Fossvoginn fyrr en um hálftíma fyrir leik í gær og leikskýrslan barst seint.
„Ég ætla ekki að tjá mig um mína persónulegu skoðun á þessu máli en þetta gerir auðvitað þeim sem starfa við leikinn erfiðara fyrir,“ segir Klara um málið í stuttu samtali við 433.is í morgunsárið.
„Það voru allir möguleikar skoðaðir en það var ekki hægt að finna nýjan leikdag.“
Klara skilur pirring Blika og undir öðrum kringumstæðum hefði verið hægt að koma til móts við þá.
„Ég skil það og auðvitað hefðum við viljað hjálpa en það var ekki hægt að færa leikinn.“