fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Skýr hugmyndafræðileg sýn Frakklandsforseta

Eyjan
Sunnudaginn 27. ágúst 2023 16:23

Emmanuel Macron. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nýjasta hefti franska vikuritsins Le Point birtist langt viðtal við Emmanuel Macron Frakklandsforseta, en blaðamaður sótti hann heim á dögunum til sumardvalarstaðar forsetans á Fort Brégançon sem fornt virki á suðurströndinni, Côte d’Azur, miðja vegu milli Marseille og Cannes. Fjölmargt bar á góma í viðtalinu, jafnt innanlandsmálefni sem utanríkismál og en óhætt er að telja Macron höfuðleiðtoga álfunnar um þessar mundir og ef til vill helsta forystumann hins frjálsa heims.

Úkraínustríðið er mál málanna í evrópskum stjórnmálum og því ekki að undra að blaðamaður hæfi samtalið á spurningu þar að lútandi: hvernig forsetinn sæi fyrir sér lyktir ófriðarins. Macron sagði spurninguna í reynd vera hvort vestræn ríki gætu horft upp á að Rússar ynnu sigur á Úkraínumönnum. Svarið við þeirri spurningu væri afdráttarlaust neitandi. Vesturveldunum bæri skylda til að standa vörð um alþjóðalög, fullveldi ríkja og landamæri og menn yrðu að vera viðbúnir því að stríðið drægist enn á langinn. Hann bæri þá von í brjósti að gagnsókn Úkraínumanna yrði til þess að menn settust að samningaborðinu en niðurstaðan yrði að vera á forsendum Úkraínumanna sem fullvalda þjóðar. — „Myndum við sætta okkur við að öfl utan Frakklands segðu okkur hvernig fara ætti með Alsace-Lorraine?“ spurði Macron og setti málin þar með í sögulegt samhengi sem hvert mannsbarn skilur.

Frakklandsforseti sagði Úkraínustríðið kalla á endurskoðun á „geópólitískri“ stöðu álfunnar (fr. géopolitique de l’Europe). Hann hefði verið skýrmæltur um þessi mál í seinasta samtali þeirra Vladimírs Pútín Rússlandsforseta fyrir allnokkru. Blaðamann fýsti þá að vita hvort tengslin við Kreml væru rofin en Macron svaraði að bragði að hann myndi ræða við Pútín þegar hann teldi að það gæti komið að gagni. Moskvustjórn hefði kosið að lítilsvirða fjölþjóðasamninga og tekið að aðhyllast hvort tveggja í senn heimsvalda- og síðnýlendustefnu á sama tíma og Rússar væru kjarnorkuveldi og ættu fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Vitaskuld hefði orðið að bregðast við af fullum þunga.

Aukin samvinna óhjákvæmileg

Macron varar í viðtalinu við of þröngu sjónarhorni á málefni álfunnar. Eitt sé staða hennar í áðurnefndu „geópólitísku“ samhengi og vitnaði hann þar til ræðu sinnar á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík í maí síðastliðnum. Það sé hugmyndin um bandalag sem þeir François Mitterrand Frakklandsforseti og Vaclav Havel, forseti frjálsrar Tékkóslóvakíu, komu fram með á sínum tíma — bandalag sem næði frá Atlantshafi til Kákasusfjalla. „Geópólítík“ er dregið af forngrísku orðunum gê (γῆ) sem þýðir jörð og politikḗ (πολιτική), en í þar er átt við rannsókn á stjórnmálum og alþjóðasamskiptum í landfræðilegu samhengi.

Macron nefnir að þetta sé ein sýn á álfuna. Önnur sé Evrópa sameiginlegs markaðar, framleiðslu, viðskipta og velmegunar. Aukin samvinna Evrópuríkja sé óhjákvæmileg og hún geti orðið með ýmsum hætti, en út á við þurfi meiri dirfsku. Hann nefnir til að mynda að Bandaríkjamenn og Kínverjar verji margfalt meiri fjármunum til tækniþróunar en Evrópumenn sem verði að gera upp við sig hvort þeir vilji eingöngu vera neytendur innflutts iðnaðarvarnings og innfluttrar tækni frá Kína og Bandaríkjunum (aka kínverskum rafmagnsbifreiðum og horfa á amerískrar streymisveitur) eða vera sjálfir í forystu í iðnaði og tækni „á forsendum okkar sjálfra“ eins og hann orðar það. Í þessu samhengi yrðum við „að koma fram sem Evrópumenn“. Það verði ekki gert nema með samþættari innri markaði, miklu umfangsmeiri fjárfestingu í hvers kyns nýrri tækni og nýjum iðnaði og nefndi hann sérstaklega í því sambandi framleiðslu á rafhlöðum, hálfleiðurum og vetni. Menn verði að viðurkenni þá staðreynd að álfan eigi í harðvítugri samkeppni við Bandaríkin og Kína.

Þá sagði hann að Evrópuríkin yrðu beinlínis að draga úr innflutningi frá Kína til að vernda eigin framleiðslugetu og hernaðarmátt sömuleiðis. Ekki færi heldur saman til lengdar að ætla að viðhalda öflugustu velferðarríkjum veraldar meðan drægi úr framleiðslu. Það gengi einfaldlega ekki upp. Sem kunnugt er hefur fátt reynst Macron jafnerfitt og hækkun eftirlaunaaldurs. Slíkar breytingar eru samt óhjákvæmilegar — ella hætta á að elstu samfélögin heltist úr lestinni.

Horft til upplýsingaaldar

Emmanuel Macron nefndi í viðtalinu að á sama tíma og einræðisöflum yxi ásmegin víða um veröld blasti við félagsleg upplausn á Vesturlöndum þar sem grafið sé undan rótgrónum gildum og yfirvaldi sömuleiðis. Þeim sem mislíki sú þróun fyllist ótta sem sé gróðrarstía öfgahyggju en í róttækninni öðlist menn fullvissu. Sem andsvar við þessu vilji hann feta „hinn franska veg“ og byggja á grunni húmanismans sem kom fram á upplýsingaöld. Það sé „franska leiðin“ („Moi, je crois à un autre chemin, le projet humaniste des Lumières, ce doit être le chemin français“). Þar vísar hann til hugmyndafræðilegrar gerjunnar á 18. öld sem varð aflvaki frönsku og amerísku byltinganna. Í franskri sögu er átjánda öldin kölluð „öld ljósanna“ (fr. siècle des Lumières). Þá fylltust menn trú á framfarir og skynsemishyggju og skópu nútíma hugmyndir um þjóðfélög og stjórnkerfi. Það er áhugavert að Frakklandsforseti standi svo föstum fótum sögulega en athugum að önnur samfélög álfunnar byggja á sömu hugmyndafræði og sömu gildum, arfleifð hugsuða 18. aldar — einkum og sér í lagi franskra.

Grunngildi þjóðfélagsins

Vitaskuld bar nýlegar óeirðir, skemmdarverk og ofbeldisöldu á góma í viðtalinu sem og félagslegt misrétti og erfiðleika við aðlögun innflytjenda frá öðrum menningarheimum að frönsku samfélagi. Macron nefndi fjölmargar leiðir til úrbóta sem sumar væru þegar hafnar en þær sneru að bættu öryggi borgaranna og félagslegum umbótum. Hvað sem því liði þyrfti að hefja til vegs og virðingar ýmis grundvallargildi; þjóðtungan væri þar efst á blaði, hún væri helsta sameiningarafl ríkisins og þá yrði að endurheimta agavald kennara og agavald foreldra og talaði hann í þessu sambandi um „rebâtir la nation“ sem mætti kannski útleggja sem þjóðfélagslega endurreisn. Hvað skólana áhrærði hefði of mikil áhersla verið lögð á umgjörð í stað innihalds — skólinn þyrfti færri tölvuskjái og meiri menntun.

Frakklandsforseti talar enga tæpitungu. Hann er opinskár um þá harðvítugu alþjóðlegu samkeppni sem við sem Evrópumenn eigum í. Ekki megi sofna á verðinum í kapphlaupi um nýja tækni og nýja tíma en samhliða þurfi Evrópumenn að huga að eigin grunngildum sem mótuðust í upplýsingunni á átjándu öld. Sameiginleg menningararfleifð sé grundvallaratriði, þjóðtunguna verði að efla og sporna við upplausn; koma á meiri reglu og aga í þjóðfélaginu — ekki hvað síst inni á heimilum og í skólastofunni.

Segir mér hugur að sú skýra hugmyndafræðilega sýn sem hér birtist eigi sér marga fylgismenn víðs vegar um álfuna — og ekki síður hér í okkar eyríki úti á miðju Atlantshafi en meðal Frakka og annarra meginlandsþjóða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
01.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
31.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
26.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
25.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!