„Málið er að þetta er hættulegt, hún er afbrotamaður og það verður að stoppa þetta,“ segir Jóhann Guðni Harðarson, í tilefni þess að Ástríður Kristín Bjarnadóttir, sem grunuð er um fjársvik gagnvart hundruðum karlmanna, var látin laus úr gæsluvarðhaldi á föstudag. Ástríður hafði þá setið í gæsluvarðhaldi í 12 vikur á grundvelli almannahagsmuna, það er hættu á því að hún haldi áfram afbrotum ef hún gengur laus, en ekki má halda grunuðum lengur í gæsluvarðhaldi en 12 vikur án þess að birta þeim ákæru. Rannsókn á máli Ástríðar mun vera langt komin en henni er ekki lokið og ekki hefur verið gefin út ákæra.
Til rannsóknar eru meint svik Ástríðar gagnvart 11 karlmönnum og nema upphæðirnar samtals 25 milljónum króna. Flest bendir til að fjársvik Ástríðar séu miklu umfangsmeiri og nái að minnsta kosti aftur til ársins 2016. Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að á undanförnum árum hafa hátt í 400 karlmenn lagt inn hjá henni samtals yfir 200 milljónir króna. Talið er að Ástríður hafi tapað öllum peningunum við fjárhættuspil.
Jóhann segir Ástríði hafa svikið út úr sér rúmlega 220 þúsund krónur árið 2016 og er þetta elsta tilvikið sem greint hefur verið frá þar sem Ástríður er sökuð um fjársvik. En hann telur að svikin nái lengra aftur í tímann: „Á þeim tíma sem þetta kom upp þá var fólk sífellt að hafa samband við mig og nefna nafn hennar að fyrra bragði. Ég var augljóslega ekki sá fyrsti sem hafði lent í henni.“
Ástríður og Jóhann kynntust á stefnumótavef og bað hún hann um lán fyrir útfararkostnaði vegna andláts móður hennar. Síðan kom í ljós að móðir hennar var sprelllifandi. Ástríður bað hann um sífellt meiri peninga og alltaf virtust eðlilegar skýringar á að hana vantaði meira, að peningarnir væru alveg að fara að detta inn hjá henni, launin hefðu tafist og svo framvegis.
„Ég var ekki nema 22 ára á þessum tíma og var ekki bráðþroska. Auk þess átti ég í öðrum vandamálum og var í neyslu,“ segir Jóhann og segist finna til mikillar skammar, bæði yfir trúgirni sinni en líka yfir því að hafa ekki nafngreint Ástríði í viðtali við DV árið 2016. „Hugsanlega hefði ég getað forðað hunduðum manna frá því að lenda í henni,“ segir hann. Hann var undir miklum þrýstingi Ástríðar og fjölskyldu hennar um að nafngreina hana ekki. Það fór hins vegar svo að hann fékk skuldina endurgreidda í nokkrum hlutum á nokkurra mánaða tímabili og var það í gegnum foreldra hennar.
„Ég geri mér grein fyrir því að ég slapp miklu betur frá henni en margir,“ segir hann. Hann neitar því þó ekki að málið sitji í honum og hann hafi ekki að fullu gert upp sálrænar afleiðingar af þessari reynslu.
„Liðin tíð er liðin tíð. En ég átti mjög lengi erfitt með að treysta fólki eftir þetta.“
Jóhanni er umhugað um nafnbirtingu Ástríðar og telur nauðsynlegt að vara við henni, sérstaklega af því hún gengur laus á ný og ekkert hefur komið í ljós sem bendir til að hún láti af iðju sinni ef hún hefur tök á að stunda hana.
„Þessi manneskja er stórhættuleg og á heima á viðeigandi stofnun,“ segir hann. Hann neitar að að skrifa vandann alfarið á spilafíkn. „Ég geri ekki lítið úr spilafíkn, hún er örugglega erfitt vandamál eins og aðrar fíknir, en ég held að þetta sé miklu stærra. Ég hef sjálfur verið virkur fíkill og þá kom fyrir að ég stal úr búð, ef ég var svangur og hafði kannski ekki borðað að ráði í viku, en ég fór ekki á hverjum degi og stal, það hefði ég ekki getað hugsað mér. Það kom líka fyrir að ég bað mömmu um að lána mér fimm þúsund kall, en ég hefði aldrei getað beðið hana daglega um 20 þúsund króna lán. Sjáðu til, þetta snýst ekki bara um fíkn, þetta er siðblinda og manneskjan þyrfti að vera inn á viðeigandi stofnun. Einhver meðferð við spilafíkn eða 12 spora fundir, það mun ekki gera neitt. Þessi manneskja er stórhættuleg.“
Jóhann segir brýnt að fólk gæti þess að trúa aldrei neinu sem Ástríður segir. „Hún er klókur og reyndur afbrotamaður, útsmogin í svikum og prettum. Einungis inngrip geðheilbrigðiskerfisins og vistun á viðeigandi stofnun undir stöðugu eftirliti er það sem getur stöðvað hana.“