Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra birtir grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hún vill hrekja rangar fullyrðingar um útlendingamál að undanförnu. Guðrún segir skilríkjaleysi ekki leiða til þess að þjónusta sé felld niður við hælisleitendur ef þeir sýna stjórnvöldum samstarfsvilja:
„Fullyrt er í umræðunni að fólk sem getur ekki útvegað sér skilríki sé svipt þjónustu. Þetta er rangt. Ef ómögulegt er að útvega viðkomandi skilríki af ástæðum sem ekki er hægt að kenna viðkomandi einstaklingi um, þá er þjónusta ekki felld niður. Þjónusta er eingöngu felld niður hjá þeim sem ekki sýna neinn vilja til samstarfs við yfirvöld um að útvega ferðaskilríki.“
Þá segir Guðrún það ranghermi, sem haldið hefur verið fram, að skortur á gagnkvæmum samningum við erlend ríki komi í veg fyrir að hægt sé að útvega fólki skilríki:
„Hið rétta er að endurviðtökusamningar eru ekki forsenda þess að hægt sé að afla skilríkja. Það eina sem kemur í veg fyrir að útveguð séu skilríki er skortur á samvinnu viðkomandi einstaklings. Enginn sem er reiðubúinn til að vinna með yfirvöldum að lögmætri niðurstöðu og þar með brottför frá landinu er sviptur þjónustu. Eina fólkið sem svipt er þjónustu 30 dögum eftir endanlega synjun eru þau sem neita að hlíta löglegri ákvörðun stjórnvalda og vilja ekki vinna með yfirvöldum að lögmætri og réttri niðurstöðu sem er brottför frá landinu.“
Guðrún bendir á að með lögum skuli land byggja og allir þurfi að fara að lögum. „Það gildir einnig um einstaklinga sem hér eru í ólögmætri dvöl. Þeim ber að fara að lögum.“