fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Skilyrði Íslandsbanka um virk viðskipti vekur furðu

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 26. ágúst 2023 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viðskiptavinur Íslandsbanka sem brá sér í útibú bankans á Suðurlandsbraut Reykjavík fyrr í vikunni vakti athygli DV á neðangreindum upplýsingum sem eru í bankanum. Vakti skiltið furðu viðskiptavinarins sem hefur átt í viðskiptum við bankans til fjölda ára og velti hann því meðal annars fyrir sér hvernig barn hans sem er 18 ára og með reikning í bankanum geti nú verslað sér gjaldeyri til utanlandsferðar í næstu viku, þar sem barnið er nemandi í menntaskóla og því ekki með launaveltu. 

Blaðamaður fann enga tilkynningu um þetta á heimasíðu bankans eða í tilkynningu og sendi því skriflega fyrirspurn til bankans með þremur spurningum:

1) Af hverju eru þessar reglur/skilmálar til komnir?

2) Hvað með viðskiptavini bankans sem eru undir 18 ára og/eða eru ekki með 3 mánaða launaveltu, eins og t.d. viðskiptavinir sem eru námsmenn, í fæðingarorlofi, í veikindaleyfi og aðrir sem eru af einhverjum ástæðum ekki með 3 mánaða launaveltu?

3) Er miðað við 3 mánaða samfellda launaveltu frá sama vinnuveitanda?

Svar Íslandsbanka miðvikudag 23. ágúst:

1) Af hverju eru þessar reglur/skilmálar til komnir?

Bankanum er skylt samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptavinum þegar sýslað er með reiðufé. Þá eru einnig lagðar skyldur á bankann að geta rakið viðskipti og það er hluti af áreiðanleikakönnun og að við gerum kröfu um virk viðskipti til að geta uppfyllt skyldur okkar. Hægt er að kaupa gjaldeyri hjá gjaldkera ef viðkomandi er búinn að vera með virk launaviðskipti í 3 mánuði eða er með langtímasparnað. Til að kaupa gjaldeyri með rafrænum skilríkjum þarf viðkomandi að eiga reikning hjá bankanum.

2) Hvað með viðskiptavini bankans sem eru undir 18 ára og/eða eru ekki með 3 mánaða launaveltu, eins og t.d. viðskiptavinir sem eru námsmenn, í fæðingarorlofi, í veikindaleyfi og aðrir sem eru af einhverjum ástæðum ekki með 3 mánaða launaveltu?

Tekið er tillit til aðstæðna hverju sinni og horft til hvort viðskiptavinur sé að nýta sér aðra þjónustuþætti. Einnig er horft til þess ef viðskiptavinur er að fá greiðslur frá LÍN, fæðingarorlofssjóði, eða sjúkratryggingum sem dæmi. Þetta er eingöngu gert til að bankinn uppfylli lagaskyldur sína um rekjanleg viðskipti.

3) Er miðað við 3 mánaða samfellda launaveltu frá sama vinnuveitanda?

Nei laun þurfa ekki að koma frá sama vinnuveitanda.

Eins og ráða má af svari Íslandsbanka þá virðist viðskiptavinur sem nýta vill sér einhverja þeirra þjónustu sem tilgreind er þurfa að vera viðskiptavinur bankans, mæta í útibú til að nýta sér þjónustu og ef að hann uppfyllir ekki kröfuna um þriggja mánaða launaveltu að leggjast undir eins konar huglægt mat viðkomandi þjónustufulltrúa.

Hér virðist til dæmis útilokað að geta skotist í næsta banka sem er á leið manns til að kaupa gjafakort fyrir veislu kvöldsins, svo dæmi sé tekið. 

Hvað með hina stóru bankana?

Eftir að skriflegt svar barst frá Íslandsbanka var tölvupóstur sendur til Arion banka og Landsbanka með fyrirspurninni: „ Okkur barst eftirfarandi mynd sem tekin er í útibúi Íslandsbanka.  Mig langaði að athuga hvort að sömu reglur gildi hjá Arion banka/Landsbankanum og ef svo er að fá link á reglurnar á heimasíðu bankans og svör við eftirfarandi spurningum (sem voru þær sömu þrjár og sendar voru til Íslandsbanka).“ 

Svar Landsbanka fimmtudag 24. ágúst:

Nei, sambærilegar reglur um að fólk þurfi að vera virkir viðskiptavinir til að fá tiltekna þjónustu eru ekki í gildi hjá Landsbankanum.

Varðandi kaup á gjaldeyri, þá er ekki gerð krafa um að fólk sé í viðskiptum við Landsbankann. Viðskiptavinir annarra banka og sparisjóða, innlendra sem erlendra, geta til dæmis notað alla hraðbanka Landsbankans, þar með talið gjaldeyrishraðbanka ef þeir eru með viðurkennd greiðslukort. Þeir geta einnig komið í útibú þar sem er gjaldkeraþjónusta og keypt gjaldeyri þar.

Ef fólk vill nota reiðufé til að greiða fyrir gjaldeyrinn, þarf aftur á móti að leggja peningana fyrst inn á reikning hjá Landsbankanum. Það er gert vegna lagakröfu um að til staðar séu upplýsingar um uppruna peninganna og gild áreiðanleikakönnun en hún er liður í því að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það tekur aðeins örfáar mínútur að stofna reikning hjá Landsbankanum og það er ókeypis. Engin skilyrði eru gerð um önnur eða frekari viðskipti þeirra sem nýta sér þessa þjónustu.

Varðandi erlendar greiðslur, t.d. Swift-greiðslur, þá geta viðskiptavinir Landsbankans framkvæmt þær í netbankanum. Einnig er hægt að koma í næsta útibú og fá aðstoð við að framkvæma erlenda greiðslur. Ef þú kemur með reiðufé og vilt millifæra andvirðið til útlanda þarftu að vera með reikning hjá bankanum, samanber m.a. reglur um áreiðanleikakönnun.

Varðandi gjafakort, þá geta allir keypt gjafakort hjá Landsbankanum, viðskiptavinir sem aðrir. Það er t.d. hægt að gera með því að nota greiðslukort í gjafakortasjálfsölum sem eru staðsettir víða um land. Ef þú kemur með reiðufé og vilt kaupa gjafakort fyrir andvirðið, þarftu að vera með reikning hjá bankanum, sbr. reglur um áreiðanleikakönnun.

Ef þú vilt skipta gjaldeyri eða íslenskum krónum í smærri/stærri einingar, þá gerum við það innan skynsamlegra marka, hvort sem þú ert viðskiptavinur eða ekki.

Varðandi innheimtuskuldabréf og innheimtukröfur þá þarftu að vera viðskiptavinur hjá bankanum en ekki er gerð krafa um virk viðskipti.

Varðandi viðskipti með reiðufé (íslenskar krónur og erlendan gjaldeyri) ef fólk er ekki viðskiptavinir Landsbankans.

Viðskipti með reiðufé geta aðeins farið fram ef viðskiptavinur er með gilda áreiðanleikakönnun en hún gerir bankanum kleift að sinna eftirliti með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. 

Áreiðanleikakönnun er framkvæmd um leið og fólk stofnar reikning hjá bankanum. Afar einfalt er að stofna reikning hjá bankanum, annað hvort í gegnum Landsbankappið eða í netbankanum á landsbankinn.is. Ekki er þörf á að koma í útibú. Áreiðanleikakönnun felst í því að svara nokkrum spurningum og snýst m.a. um uppruna fjármuna sem fara í gegnum bankann. Ferlið tekur aðeins nokkrar mínútur og er ókeypis. Áreiðanleikakönnun gildir oftast í 5 ár.

Ef viðskiptavinir annarra banka vilja leggja reiðufé inn á reikninga í öðrum bönkum í gegnum Landsbankann, þarf viðkomandi að hafa reikning hjá bankanum og vera með gilda áreiðanleikakönnun.

Ef viðskiptavinir annarra banka vilja skipta erlendum gjaldeyri í íslenskar krónur (eða öfugt), þarf viðkomandi að hafa reikning hjá bananum og vera með gilda áreiðanleikakönnun.

Ef fólk, sem ekki er í viðskiptum við Landsbankann, notar greiðslukort frá öðru fjármálafyrirtæki, er það þess fjármálafyrirtækis að sinna lögbundnu eftirliti m.a. með áreiðanleikakönnun. Þannig geta til dæmis allir sem eru með greiðslukort tekið út peninga, bæði íslenska og erlenda, í öllum hraðbönkum Landsbankans, án þess að svara áreiðanleikakönnun Landsbankans.

Landsbankinn gerir hér greinarmun á hvort viðskiptavinur, hvort sem hann er viðskiptavinur Landsbankans eða annarra banka, hyggist nota greiðslukort eða reiðufé. Metur bankinn það sem svo að ef viðskiptavinurinn er nú þegar með greiðslukort þá hafi sá banki sem gaf út greiðslukortið metið hann sem áreiðanlegan og því ekki þörf á að Landsbankinn láti hann gangast undir aðra áreiðanleikakönnun. Annað á við komi viðskiptavinur með fúlgur reiðufjár í bankann, þá kvikni eðlilega viðvörunarbjöllur um hvaðan féð er fengið. 

Mynd: Eyþór Árnason

Svar Arion banka föstudag 25. ágúst:

Eins og öðrum fjármálafyrirtækjum er Arion banka skylt, á grundvelli laga nr. 140/2018, að búa yfir tilteknum upplýsingum um viðskiptavini sína og er bankanum óheimilt að framkvæma viðskipti eða eiga í viðskiptasambandi nema þær liggi fyrir. Þetta er liður í baráttunni gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Þegar kemur að reiðufjárviðskiptum þá horfum við ekki til launaveltu heldur þurfa viðskiptavinir að hafa lokið áreiðanleikakönnun áður en slík viðskipti geta átt sér stað. Viðskiptavinir þurfa einnig að hafa hjá okkur innlánsreikning þar sem öll reiðufjárviðskipti þurfa að hafa viðkomu á innlánsreikningum svo tryggja megi rekjanleika fjármuna og viðskiptasögu.

Arion banki svarar í mun styttra máli en Landsbankinn, en ljóst má af svarinu að áreiðanleikakönnun er skilyrði þegar kemur að viðskiptum með reiðufé. Hinum spurningum er þó ekkert svarað og því ekki ljóst hvort að viðskiptavinur annars banka geti yfirhöfuð átt viðskipti við Arion banka. 

Oft er það svo að þó maður eigi í viðskiptum við einn banka þá er útibú annars banka nær manni, vinnustað, heimili eða þegar maður er á ferðinni, þá einstaka sinnum sem maður þarf að fara inn í banka. Og hvort sem maður mætir með reiðufé eða greiðslukort þá rukka allir bankarnir fyrir alla þjónustu sem innt er af hendi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Læknir vill bólusetningar við RS veiru – „Legudeildin full af börnum með sýkinguna“

Læknir vill bólusetningar við RS veiru – „Legudeildin full af börnum með sýkinguna“
Fréttir
Í gær

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurði Árna lögreglumanni ekki gerð refsing fyrir ofbeldi gegn fanga – „Við verðum skelkaðir í aðstæðum og gerum mistök“

Sigurði Árna lögreglumanni ekki gerð refsing fyrir ofbeldi gegn fanga – „Við verðum skelkaðir í aðstæðum og gerum mistök“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Heimilt að gera fjárnám hjá Isavia

Heimilt að gera fjárnám hjá Isavia
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Verðbréf hrynja hjá United Health Group eftir morðið á Thompson – Hatur í garð sjúkratryggingakerfisins blossaði upp

Verðbréf hrynja hjá United Health Group eftir morðið á Thompson – Hatur í garð sjúkratryggingakerfisins blossaði upp