Eden Hazard er enn án félags þegar helstu deildir Evrópu eru farnar af stað. Svo virðist hins vegar sem hann hafi fengið nóg af tilboðum.
Samningur hins 32 ára Hazard við Real Madrid rann út fyrr í sumar. Hann hafði verið hjá félaginu í fjögur ár og óhætt er að segja að hann hafi valdið vonbrigðum.
Kappinn hefur verið orðaður hingað og þangað, til að mynda við félög í Sádi-Arabíu.
Einn netverji skrifaði ummæli undir færslu Hazard á dögunum. „Enginn vill semja við þig,“ skrifaði notandinn.
Hárgreiðslumaður Hazard svaraði þá óvænt. „Fyndið að þú skulir segja það því hann hefur hafnað sex liðum.“
Hvaða lið þetta eru er auðvitað ekki vitað en það verður fróðlegt að sjá hvert næsta skref Hazard verður.