Það stefnir allt í það að nafn Mohamed Salah verði mest rætt nú þegar félagaskiptaglugginn fer senn að loka. Liverpool lét alla helstu blaðamenn Englands vita af því í gær að Mohamed Salah sé ekki til sölu í sumar í ljósi frétta af áhuga Al Ittihad í Sádí Arabíu.
Al Ittihad er sagt vera búið að bjóða Salah að verða launahæsti leikmaður í heimi, þéna meira en Cristiano Ronaldo.
Tuttosport á Ítalíu segir að Liverpool sé búið að finna arftaka Salah verði hann óvænt seldur, mögulega kemur tilboð sem Liverpool getur hreinlega ekki hafnað.
Segir Tuttosport að Federico Chiesa kantmaður Juventus sé maðurinn sem Liverpool horfir til að fá ef Salah fer.
Chiesa er til sölu fyrir rúmar 50 milljónir punda en Juventus sárvantar peninga inn í reksturinn hjá sér og er Chiesa einn af þeim sem gæti farið.
Al Ittihad er sagt tilbúið að borga meira en 100 milljónir punda fyrir Salah en Liverpool segir hann þó alls ekki til sölu.