Kærunefnd útlendingamála hefur fellt úr gildi úrskurð Útlendingastofnunar um að vísa skuli rússneskum manni, hinum 33 ára gamla Stanislav Kniazev, úr landi. Úrskurður þessa efnis féll í dag (24. ágúst) og hefur DV hann undir höndum en úrskurðurinn verður birtur næstu daga á vef stjórnarráðs.
Maðurinn kom hingað til lands haustið 15. september 2022 til að halda upp á afmælið sitt með nokkrum ættingjum sínum sem eru búsettir hérlendis. Kom hann hingað sem ferðamaður með vegabréfsáritun sem veitti honum rétt á 45 daga dvöl í landinu.
Á meðan dvöl mannsins stóð hér var gefin úr herkvaðning í Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu. Fól hún í sér að þeir sem ekki sinntu herkvaðningu ættu yfir höfði sér fangelsi. Herkvaðningin barst heim til hans í Rússlandi og höfðu foreldrar hans samband við hann og skýrðu honum frá stöðu mála. Í úrskurðinum segir:
„Í greinargerð kemur fram að kærandi sé friðarsinni, sé á móti herskyldu og hafi gert allt sem í hans valdi standi til að komast hjá herskyldu í heimaríki sínu. Vísað er til þess að í Rússlandi hafi verið hægt að komast hjá almennri herskyldu með því að stunda og ljúka háskólanámi. Hafi þeir sem hafi valið að fara í háskólanám átt að leggja stund á tiltekin herfræðileg námskeið án þátttöku í hernum. Kærandi hafi valið að fara þessa leið og sé háskólamenntaður í tölvunarfræði og hafi starfað sem slíkur í heimaborg sinni, Pétursborg. Hinn 21. september 2022 hafi kæranda orðið ljóst að hann ætti einungis tvo kosti, annað hvort að taka þátt í hernaði Rússa í Úkraínu eða sæta fangelsisvist í 10 ár. Að mati kæranda ógna báðir valkostirnir lífi hans. “
Með Úkraínu-stríðinu og herkvaðningunni hefði ástandið í Rússlandi breyst og ljóst væri að hann gæti ekki komið sér undan herskyldu og þátttöku í stríðinu án þess að lenda í fangelsi. Ennfremur segir:
„Kærandi byggir aðalkröfu sína um alþjóðlega vernd á því að hann eigi á hættu að verða ofsóttur og kúgaður í heimaríki sínu vegna andstöðu sinnar við þátttöku í stríðsátökum í Úkraínu. Kærandi telur að með því að snúa ekki aftur til heimaríkis sé hann í verki að hafna kvaðningu rússneskra stjórnvalda um að gegna herskyldu í átökum sem hann telur að feli í sér glæpi sbr. e-lið 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og/eða athafnir samkvæmt b-lið 2. mgr. 40. gr. sömu laga. Kærandi telur að yfirvofandi herskylda hans í heimaríki falli jafnframt undir aðrar skilgreiningar ofsóknarhugtaks laga um útlendinga. Kærandi byggir framangreinda kröfu einnig á því að hann tilheyri hópi ungra rússneskra karlmanna sem séu í verulegri hættu á að verða fyrir ofsóknum og kúgunum af hálfu stjórnvalda í Rússlandi, þ.e. að þeim verði gert að taka þátt í ólögmætu stríði. Kærandi standi frammi fyrir þeim afarkostum að drepa eða verða drepinn í stríði eða vera látinn sæta fangelsisrefsingu fyrir að neita að taka þátt í stríðinu í Úkraínu.“
Útlendingastofnun hafnaði því að maðurinn uppfyllti skilyrði þess að teljast flóttamaður og sagði einnig að hann uppfyllti ekki skilyrði þess að fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Höfnunin byggði meðal annars á því að ríki hafi rétt á að beita þegna sína herskyldu. Þá var talið að manninum stæði ekki hætta af því að hafa ekki sinnt herkvaðningu þar sem herkvaðningin hefði ekki verið birt honum með lögmætum hætti.
Maðurinn gagnrýndi það viðhorf Útlendingastofnunar að ganga út frá því að Rússland væri eins og hvert annað lýðræðisríki þar sem lögum og reglum sé fylgt. „Kærandi telur að engin eiginleg réttarvernd sé fyrir hendi í heimaríki hans fyrir einstaklinga í hans stöðu og að það sé staðreynd að rússneskir karlmenn á tilteknum aldri séu teknir og settir í herinn hvort sem þeim líki það betur eða verr. Kærandi telur að mat Útlendingastofnunar á meintri réttarvernd hans í heimaríki sé einfaldlega rangt.“
Maðurinn segist einnig eiga á hættu ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana sinna:
„Þá byggir kærandi aðalkröfu sína á því að hann eigi jafnframt á hættu að sæta ofsóknum og kúgun í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna. Kærandi sé á móti stríðinu í Úkraínu og ef hann láti þá skoðun sína í ljós á einhvern hátt þá eigi hann á hættu að sæta ofsóknum af hálfu stjórnvalda þar í landi. Kærandi hafi þegar látið glitta í sínar pólitísku skoðanir með þátttöku í mótmælum þar í landi og hafi áhyggjur af því að hann og/eða hugsanlega fjölskylda hans verði látin gjalda fyrir þær skoðanir.“
Einnig segir hann að ástandið sé þannig í heimalandi hans að hann geti átt von á því að sæta ómannúðlegri meðferð og refsingum fyrir að hafa neitað að taka þátt í stríðsátökum.
Í niðurstöðu kærunefndarinnar er bent á að samkvæmt stjórnsýslulögum beri stjórnvaldi að afla þeirra gagna sem nauðsynleg eru til að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun. Í ljósi þessa hefði verið eðlilegt að Útlendingastofnun aflaði sér upplýsinga um rússnesk fangelsi við afgreiðslu erindis mannsins.
Útlendingastofnun komst að þeirri niðurstöðu að sú refsing sem maðurinn gæti átt yfir höfði sér fyrir að hafa ekki sinnt herksyldu gæti „hvorki talist til „harðra viðurlaga“ í skilningi handbókar Flóttamannastofnunar né gæti refsingin talist „óhófleg eða að hún myndi mismuna honum á ómálefnalegum grundvelli“, sbr. clið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat Útlendingastofnunar að ákvæði rússneskra laga nr. 53/1998 um herskyldu og herþjónustu sem kvæðu á um viðurlög við að verða ekki við boði um að mæta til herþjónustu, væru ekki ósamrýmanleg viðurkenndum mannréttindareglum,“ eins og segir í úrskurðinum. Þessu hafnar kærunefndin með vísan til leiðbeininga Flóttamannastofnunar.
Í niðurstöðu kærunefndar segir ennfremur:
„Að mati kærunefndar voru aðstæður kæranda snúi hann aftur til heimaríkis ekki rannsakaðar með fullnægjandi hætti af Útlendingastofnun og skortir á frekari rökstuðning í ákvörðun Útlendingastofnunar fyrir þeirri staðhæfingu stofnunarinnar að kæranda bíði ekki fangelsisrefsing. Eins og áður greinir kom fram í ákvörðuninni refsiramminn við því að koma sér undan herskyldu sé meðal annars fangelsisvist í allt að tvö ár. Þá er það mat kærunefndar að í ljósi þess að viðurlög við að neita eða koma sér undan herþjónustu sé meðal annars fangelsisrefsing þá hafi verið tilefni til að fjalla um aðstæður í rússneskum fangelsum og meta hvort þær aðstæður væru með þeim hætti að þær gætu talist til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr., sbr.c-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Engin slík umfjöllun var í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda.“
Niðurstaða kærunefndar er að fella ákvörðun Útlendingastofnunar, um að vísa manninum úr landi, úr gildi, og er Útlendingastofnun gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.