Geir Þorsteinsson, fyrrum formaður KSÍ og framkvæmdarstjóri Leiknis í dag segir það hreint ótrúlegt að KSÍ ætli ekki að fresta leik Breiðabliks gegn Víkingi í Bestu deild karla um helgina.
Breiðablik er í góðri stöðu til að verða fyrsta íslenska félagið sem kemst í riðlakeppni í Evrópu. LIðið vann 0-1 sigur gegn FC Ruga í Sambandsdeildinni í dag. Tapi liðið ekki síðari leiknum eru Blikar komnir í riðlakeppni.
Geir segist hafa heimildir fyrir því að KSÍ hafi hafnað beiðni Breiðabliks um að fresta leiknum á sunnudag en víða í Evrópu eru knattspyrnusambönd að hjálpa liðunum heima fyrir.
„Computer says NO,“ skrifar Geir í pistli sínum á Facebook í kvöld.
„Breiðablik gerði vel í dag með sigri í fyrri leik í Evrópu. Félagið er í dauðafæri að komast í riðlakeppni Evrópu í fótbolta. Það verður stór áfangi fyrir íslenska knattspyrnu. Nú þarf félagið allan þann stuðning sem hægt er að veita. Heyrst hefur að mótanefnd KSÍ hafi hafnað beiðni Breiðabliks um frestun á leik gegn Víkingi sem fara á fram í Bestudeildinni á sunnudag,“ skrifar Geir um stöðu mála.
Hann rifjar svo upp hvernig hlutirnir voru í gamla daga. „Minnir mig á það sem Sigurgeir Guðmannsson heitinn sagði við mig fyrir nokkrum áratugum, þegar ég spurði hann um hvort ekki væri rétt að tölvuvæða eitthvað í starfsemi íþrótta í Reykjavík, en hann var að öðrum ólöstuðum einn helsti forystumaður í íþróttum á Íslandi. Það vita þeir sem til þekkja. Sigurgeir sem þá færði allt í kladda og allt gekk vel fyrir sig, sagði við mig: ,,if you put bullshit in you get bullshit out”, og síðan afhenti hann mér á blaði með handskrift hans úrlausn beiðni minnar sem uppfyllti óskir KSÍ að öllu leyti. Snillingur. En vonandi endurskoðar KSÍ ákvörðun sína, þetta er bara spurning um að setja réttar forsendur í tölvuna og viti menn…………..og nei ég er ekki genginn í Breiðablik (en erum við ekki öll Blikar eftir viku)“