Kvikmyndin Shallow Hal kom út fyrir 22 árum með Jack Black og Gwyneth Paltrow í aðalhlutverki.
Á sínum tíma sló myndin í gegn en það er óhætt að segja að mörgum þykir myndin ekki hafa elst vel. Paltrow hefur sagt að þetta hafi verið versta hlutverk hennar á ferlinum.
Myndin fjallar um Hal (Jack Black) sem er dáleiddur svo hann sér „innri fegurð“ fólks „utan á þeim“, hann sér Rosemary (Gwynetht Paltrow) sem granna konu, þegar hún er í raun í yfirþyngd.
Paltrow þurfti að klæðast fitubúning hluta af myndinni en þegar kom að nærmyndum af líkama Rosemary var það leikkonan Ivy Snitzer sem var í mynd.
Snitzer steig fram í nýlegu viðtali við The Guardian og sagði að hún hafi glímt við átröskun eftir myndina.
„Það var bara svo gaman að vera með í svona verkefni, það eru svo fáir sem fá að upplifa það. Á þessum tíma var viðhorfið allt öðruvísi, ef þú sást feita manneskju í kvikmynd þá var það illmennið. [Rosemary] var töff, hún var vinsæl og átti vini,“ sagði hún.
Snitzer varð fyrir áhrifum skilaboðum myndarinnar, að til að vera falleg þarftu að vera grönn, og fór að hata líkama sinn.
„Ég hataði líkama minn, eins og ég átti að gera. Ég borðaði mikið af salötum. Ég glímdi við átröskun og var mjög stolt af því,“ sagði hún.
Hún viðurkenndi að hún hafi ekki búist við að eiga erfitt eftir útgáfu myndarinnar. „Mér datt ekki í hug að milljónir manna myndu sjá myndina. Það var eins og allt það versta við að vera feit varð verra. Og enginn sagði mér að ég væri fyndin.“
Árið 2003 gekkst hún undir megrunaraðgerð til að léttast og segir að bataferlið hafi nánast drepið hana. Hún gat bara drukkið íþróttadrykki og næringardrykki í þrjá mánuði.
Síðustu áratugi hefur myndin sætt harðri gagnrýni og Paltrow hefur lýst því hversu óþægilegt það var fyrir hana að leika hlutverkið. Í viðtali árið 2001 rifjaði hún upp fyrsta daginn sem hún klæddist fitubúningnum.
„Það var svo sorglegt og hræðilegt. Enginn vildi horfa á mig því ég var feit. Ég var niðurlægð,“ sagði hún.
Netverjar hafa einnig gagnrýnt myndina. „Vandamálið er að það voru miklir fitufordómar í Shallow Hal. Mikið af feitu fólki [sem ég þekki] hefur sagt mér að þessi mynd hafi kennt þeim að hata líkama sinn. Það gerir mig mjög leiðan,“ sagði einn netverji