Eggert Skúli Jóhannesson hlaut nýlega skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að hafa svikið fé út úr Ábyrgðarsjóði launa. Málið snerist um kröfur sem gerðar voru í ábyrgðarsjóðinn vegna sex gjaldþrota félaga sem Eggert, og fjórir aðrir karlmenn sem voru ákærðir samhliða honum, voru annað hvort í fyrirsvari fyrir eða þóttust vera launþegar hjá. Alls fengu þeir greiddar um 20 milljónir áður en málið komst upp og rannsókn hófst.
Það sem tengdi sakborninga saman var Eggert Skúli, en hann tengdist meðákærðu ýmist fjölskyldu-, vina- eða viðskiptaböndum og hafði hann auk þess haft aðkomu að rekstri allra fyrirtækjanna sem við sögu komu. Meðal þeirra ákærðu voru tveir synir Eggerts. Nánar má lesa um málið hér.
Eggert Skúli hefur líka verið tengdur við dularfulla miðilinn Fréttatímann, en þar hefur hann meðal annars reynt að kveða fréttir um sjálfan sig í kút, svo sem með því að halda því fram að fyrri fréttir DV um hann hafi verið birtar að áeggjan eltihrellis og byggðu á lygum sem blaðamaður hafi fallið fyrir. Rétt er að taka fram að þær fréttir fjölluðu um ásakanir um brot gegn hegningarlögum, sem Eggert hefur nú verið sakfelldur fyrir. Fréttatíminn hefur eins birt greinar sem mála Eggert Skúla í góðu ljósi, eins og sjá má á meðfylgjandi skjáskoti.
Eins og ofangreint gefur til kynna hefur Eggert komið við sögu í rekstri fjölda fyrirtækja sem mörg hver hafa endað eignalaus í gjaldþroti. Nú greinir í Lögbirtingablaðinu frá því að enn eitt félag hans sé farið í þrot en GREYKJAVÍK ehf. var lýst gjaldþrota í maí og skiptum var lokið fyrir helgi. Félagið var stofnað í október árið 2019 og fundust engar eignir í búinu, en lýstar kröfur voru um sex milljónir.
Tilgangur félagsins var smásala og heildsala, innflutningur, útflutningur, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og kaup og sala fasteigna. Samkvæmt birtum ársreikningum voru rekstrargjöld árið 2019 131 þúsund, en tekjur voru engar. Handbært fé var tæpar 370 þúsund krónur og hlutafé 500 þúsund. Árið 2020 voru rekstrargjöld 12 krónur en tekjur engar. Fleiri ársreikningar eru ekki fyrir hendi.
Það var skatturinn sem fór fram á gjaldþrotaskipti en þar sem GREYKJAV’IK var aðeins skráð til húsa í pósthólfi í Hafnarfirði og Eggert Skúli ekki með skráð lögheimili þá þurfti að birta fyrirkall vegna kröfu um gjaldþrotaskipti í Lögbirtingarblaðinu.
Af öðrum nýlegum fyrirtækjum þar sem Eggert hefur komið við sögu má nefna félagið Tajons ehf. sem var stofnað árið 2021 en við stofnun var Eggert Skúli skráður í varastjórn en hafði engu að síður prókúru ásamt skráðum eiganda. Tajons er skráð fyrir hvalskoðunarskipi í Akranesi og virðist einnig vera á skráð sem heildsala í Hafnarfirði. Svo má nefna félagið NicMan ehf. sem einnig var stofnað 2021 en stofnandi er tengdadóttir Eggerts og sonur Eggerts er meðstjórnandi. Eggert er svo sjálfur í framkvæmdastjórn og með prókúru. Félagið hefur þó skipt um nafn og heitir í dag Market Tourism ehf. NicMan hafi það upphaflega að markmiði að selja rafrettur, en eftir nafnabreytinguna hefur markið verið sett á bílasölu, aðra þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni, smásölu um netið og auglýsingamiðlun. Svo má nefna eitt félag til viðbótar sem eins var stofnað 2021 af Eggerti Skúla. Tilgangur þess félags er markaðsstarfsemi, auglýsingar, leigumiðlun, kaup, sala og rekstur bifreiða og fasteigna, tölvuþjónusta, ásamt lánastarfsemi tengdri rekstrinum og annar skyldur rekstur. Það félag var tekið til gjaldþrotaskipta í mars á þessu ári, en það er einmitt vegna þeirra skipta sem Eggert var nýlega kvaddur til sem vitni, en greint var frá því fyrir helgi í Lögbirtingablaðinu að ef Eggert sæki ekki dómþing þann 21. september megi hann búast við því að vera handtekinn af lögreglu og færður fyrir dóm.
DV hefur áður fjallað ítarlega um Eggert Skúla og son hans, Jóhannes Gísla en þá umfjöllun má finna hér fyrir neðan.
Sjá einnig: Vafasöm flétta Eggerts Skúla